149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til að hnykkja á þessu atriði. Gífurleg vinna er lögð í fjármálaáætlun og umfjöllun um hana, í fyrsta lagi á undirbúningsstigi í Stjórnarráðinu og síðan á vettvangi Alþingis — ótrúlegir fundir í fjárlaganefnd og síðan mjög miklar umræður hér í þingsal. Þar er meginforsendan gengi krónunnar og hefur úrslitaáhrif á framvindu ýmissa þátta í íslenskum þjóðarbúskap, í fjármálalífi þjóðarinnar. Þar á meðal tengist þetta atvinnufyrirtækjum og heimilum, hugsanlegum áhrifum í gegnum vísitöluna sem hækkar til samræmis við breytingar á gengi krónunnar.

Ekki er hægt að draga aðra ályktun en að þetta sé heldur á þann veginn að frumvarpinu sé nokkuð áfátt í öllum undirbúningi þegar ekki eru lagðar meira en fjórar og hálf lína í greinargerð, og þá er ég að tala um á bls. 8, en kannski fimm eða sex ef maður tekur með það sem segir á bls. 7. Þannig að undirbúningur af hálfu þeirra aðila sem bera ábyrgð á þessu frumvarpi er náttúrlega ófullnægjandi og það er ábyrgðarhluti.

Það eru fleiri þættir, eins og hér hefur verið rætt, sem kalla á auknar skýringar. Ég kem kannski hingað upp á eftir til að fjalla nánar um það.