149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búin að setja mig nægilega vel inn í þetta atriði sem snýr að innflæði undanfarinna ára. Raunvaxtastig hér heima er auðvitað gríðarlega hátt, það er algjörlega úr samhengi við allt sem við þekkjum í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við. Vissulega þykja erlendum fjárfestum gengissveiflur óþægilegar en ég held að þeir lifi bærilega með þeim því að þeir upplifa sig margir hverjir, þá er ég að tala um þá sem eru ekki undir haftaskilyrðunum, dálítið umvafða bómull undir hitalampanum. Raunvaxtastigið er mjög hátt. Ástand undirliggjandi ríkisfjármála er mjög gott af ástæðum sem við þekkjum sem eru flestar til komnar vegna hins stórgóða plans sem var sett af stað árið 2015 undir forystu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Þessir 300 milljarðar, það var talan sem ég greip, geta væntanlega verið kvikir en ég þekki ekki í hvernig pappírum fjárfestingin er og þar fram eftir götunum. Það er alla vega þannig að raunvaxtastigið sem við bjóðum upp á hérna, sem er í rauninni óbærilegt fyrirtækjum og fjölskyldum, er þeirrar gerðar að erlendum fjárfestum þykir a.m.k. enn um sinn nægur hagur af því að vera hér inni.