149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er verst að ég þarf að spyrja hv. þingmann um fleira. Ég veit ekki hvort honum vinnst tími til að svara því öllu. Mikið hefur verið rætt um það útspil Seðlabankans, eins og má segja, að gera kröfu um að þetta mál yrði samþykkt í síðasta lagi í gær. Þar kemur náttúrlega fram að ef málið verði samþykkt eigi að samþykkja það í gær. Með öðrum orðum, af því að það var ekki samþykkt í gær, það var ekki einu sinni þingfundur í gær, má þá ekki gagnálykta að Seðlabankinn sé að segja: Fyrst þið gerðuð það ekki í tæka tíð, ekki þá samþykkja frumvarpið, vegna þess að þá ganga hlutirnir ekki eftir á markaðnum eins og við hjá Seðlabankanum hefðum viljað sjá? Fyrst þið samþykktuð frumvarpið ekki í gær, voruð ekki með þingfund, mæltuð ekki fyrir málinu, samþykktuð það ekki í gær, samþykkið þá ekki málið, því að ef þið gerið það úr þessu er hætt við að hlutirnir þróist á verri veg, eins og við hjá Seðlabankanum lýstum.