149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé hægt að draga neina aðra ályktun en þá að úr því að gærdagurinn leið án þess að neitt kæmi til sé skynsamlegt að stíga skref til baka og bakka með þessa eftirgjöf. Það væri þá ekki nema með aðstoð þeirra félaga Marty McFly og doktor eitthvað, hvað hét hann aftur doktorinn í Back to the future, því er stolið úr mér? Án aðstoðar þeirra félaga verður þetta ekki leyst í samræmi við óskir Seðlabankans. Ég held að í því samhengi sé skipi siglt og borgi sig að halla sér aftur í sætinu, draga andann með nefinu, taka málið inn í nefndina og skoða það í þaula og setja hnefann í borðið gagnvart þeim aðilum sem voru okkur erfiðastir og vildu síst af öllum spila með í því plani sem nauðsynlegt var til endurreisnar íslensku efnahagslífi.