149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að við hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson deilum aðdáun á þeim mikla skörungi sem hann nefndi hér. Ég bý nú svo vel að eiga hljómplötu á vínyl með helstu ræðum stórmennisins. Það verður engum jafnað við hann en það er náttúrlega mikill innblástur og hvatning sem felst í því að hlusta á hann.

Ég vil gera að umtalsefni þessi málefni eldri borgara sem hv. þingmaður nefndi. Hér þykir ekkert tiltökumál að gefa eftir fjárhæðir sem hlaupa á tugum milljarða eins og fjallað hefur verið um í umræðunni. Tökum mál sem ég hef gjarnan fjallað um hérna eins og fleiri, sem er hið svokallaða frítekjumark, þ.e. að sleppa fólki við að þurfa að þola skerðingar á bótum fyrir það eitt að leitast við að bæta hag sinn með aukinni vinnu. Þetta heitir á tæknimáli frítekjumark og ég hef margsinnis staðið í þessum ræðustól til að útskýra það, m.a. fyrir hæstv. fjármálaráðherra, að fyrir liggja útreikningar, sem ekki hafa verið bornar brigður á, á því að þegar tekin eru saman öll skattaleg áhrif af slíkri aðgerð þá kosti þessi aðgerð ríkissjóð ekki neitt.

Það dugir ekki til. Menn halda sig við það, eins og gjarnan er á þessum bæ, að sleppa öllum útreikningum vegna skatta sem myndu koma nýir inn í ríkissjóð, vegna aukinnar veltu, vegna þessara auknu tekna. Þetta mál dregur fram að hver króna er talin eftir og útreikningar dregnir í efa, sem eru viðurkenndir og óumdeildir, ef eldri borgarar eiga í hlut. Það er náttúrlega ekki gaman að horfa upp á þetta.