149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig ekki á þessari athugasemd forseta. Þetta er fyrsta svarið sem ég veiti undir hennar stjórn. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Hann líkir þessu við íþróttaleik eins og ég. Ég sagði í fyrri ræðu að þetta væri eins og að liðið hefði gefist upp, væri komið í búningsklefann og þyrði ekki þaðan út, færi ekki út á völlinn og gæfi leikinn og andstæðingurinn hirti auðvitað sigurinn og verðlaunin. Þetta er svolítið líkt, það er rétt hjá hv. þingmanni.

Hann spurði hvers vegna væri svona auðvelt að gefast upp. Algengasta ástæðan fyrir uppgjöf í íþróttum, ef ég upplýsi hv. þingmann um hana, er ofurvirðing fyrir andstæðingnum.Ef maður mætir á völlinn og óttast andstæðinginn og ber mikla virðingu fyrir honum er oftast nær til lítils að leika, vegna þess að yfirleitt tapar maður þannig leik. Kannski er það einmitt þannig í þessu máli, eins og margir hv. þingmenn hafa komið að í ræðustóli í kvöld, að menn bera einhvers konar óttablandna virðingu fyrir þessum jakkafataklæddu, erlendu mönnum sem líklega eru í forsvari fyrir vogunarsjóðina. Það er auðvitað alveg bannað í íþróttum að lyppast niður áður en leikurinn hefst. Ef við höldum áfram með líkinguna við íþróttir þá er eitt af því fyrsta sem góður þjálfari gerir að hvetja lið sitt og peppa það upp, ef ég má nota það orð, gagnvart andstæðingnum.