149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að forseti gefi mér svigrúm til að krefjast svara af hv. þingmanni. Ég fékk svör við flestu af því sem ég spurði um í fyrra andsvari en þó mætti hv. þingmaður gjarnan fylgja því eftir og byggja ofan á fyrra svar með því á svipaðan hátt reyna að útskýra fyrir mér af hverju menn brenna af þegar leikurinn ætti að vera tiltölulega auðveldur og auðvelt að skora, eins og í t.d. því tilviki að koma til móts við eldri borgara, þegar boltinn er fyrir framan opið mark. Hvað veldur slíkri framgöngu? Hvers vegna er svona erfitt fyrir ríkisstjórnina að koma til móts við þá sem kannski er mest þörf á að aðstoða? Jafnvel (Forseti hringir.) þegar markið er alveg opið og ekkert vandamál að skora er sparkað langt yfir.