149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:47]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir prýðisræðu. Þingmanninum varð tíðrætt um þann viðsnúning sem varð m.a. á hans tíð í þessu máli, um losun fjármagnshafta. Við höfum hér það skjal sem á þeim tíma var unnið eftir og síðan horfið frá að hluta til, eða sumarið 2016. Nú ræðum við þetta mál þegar komið er fram á nótt. Við höfum verið einskipa í okkar flokki og menn hafa talað um stjórnarandstöðu eitt og stjórnarandstöðu tvö. Á sínum tíma, af því að það hefur líka verið minnst á Icesave, þegar það var mikið í fréttum og mikið til umræðu hér í þinginu, þá stóð stjórnarandstaðan saman, ef ég man rétt.

Að því sögðu langar mig að spyrja þingmanninn, af því hann minntist á stolt og kjarkleysi: Hefur hv. þingmaður svipaða tilfinningu í þessu máli, þó að það sé kannski ekki í sama stærðarflokki og Icesave-málið, þ.e. að stjórnvöld standi ekki í lappirnar og vilji kannski ekki skilja málið eða alla vega ekki útskýra það fyrir okkur? Finnst þingmanninum þetta bera svolítinn keim af þeim tíðaranda sem þá var uppi?