149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, það er nú einu sinni þannig með blessaða sjómennskuna að maður þarf að haga seglum eftir vindi. En það er eitt sem ég hef lært í gegnum árin, það er að þó manni finnist oft fiskiríið vera rýrt, þó það sé kannski alveg ásættanlegt, þá er það ástundun sem gildir og það máltæki að þeir fiska sem róa. Ég er ekki viss um, ef við höldum áfram með þessa líkingu, að við séum að róa á fengsæl mið hvað þetta varðar, ég er hræddur um að það sé mikill kargi og hætta á því að veiðarfærin skemmist. Þegar maður ræður sig á skip sem eru fleiri en tveir eða þrír eða fjórir, ég hef verið á fiskiskipum þar sem eru jafnvel 20 karlar, þá gerir maður það ekki yfirleitt nema ráða sig í pláss hjá skipstjóra sem maður treystir fyrir skútunni. Hann þarf ekkert endilega að vera með svakalega mikinn „performance“, það er aðallega að hann fiski vel og taki skynsamlegar ákvarðanir. Út frá þeirri líkingu finnst mér við ekki vera að taka réttar ákvarðanir í þessu máli. Það má segja að skipstjórinn á þessari skútu sé kannski ekki sá skipstjóri sem ég myndi ráða mig hjá.