149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo, hv. þingmaður, að það er ekki einungis þær góðu fréttir að við getum fengið okkur hakkabuff og spælegg að lokinni umræðu í hádeginu á morgun, heldur er það þannig að með hverri ræðu sem við flytjum í þessum þingsal í kvöld og fram í nóttina styttist sá tími að hæstv. fjármálaráðherra komi heim af íhaldsmannahátíðinni miklu sem hann er í úti í löndum núna.

Það gæti því alveg farið svo, ef okkur tekst vel til við að ræða þetta mál í hörgul og til hlítar, að hæstv. ráðherra komi til fundar við okkur þegar hann snýr heim af íhaldsmannahátíðinni miklu í útlöndum. Það væri náttúrlega fengur að því að fá hæstv. fjármálaráðherra hingað í salinn og fá sýn hans á málið, sem ég geri ráð fyrir að hafi verið jafn mikið útvistað og fjárlögunum. Ég byggi það m.a. á því, ef ég man rétt, að í greinargerðinni með frumvarpinu kemur fram að kostnaðaráhrif á ríkissjóð verði engin, núll.

Við viljum halda því fram með nokkrum rétti, það hefur alla vega enginn komið hingað til að hrekja það. Við höfum beðið eftir því í um 12 tíma að hingað komi einhver og hreki það sem við erum að halda hér fram. Segi við okkur: Þið eruð bara vitleysingar og vitið ekki hvað þið eruð að segja. Það væri fengur að því að hingað kæmi einhver og sannaði það fyrir okkur, sýndi okkur fram á það að við séum að vaða reyk í málinu.

Það hefur enginn boðið sig fram í það, ekki nokkur. Það virðist svo vera að menn leggi sig algerlega í framkróka við það að forðast að taka umræðu við þennan hóp um málið. Ég veit ekki hvað það segir öllum öðrum, en það segir mér að fyrst menn hafa ekki döngun í sér til að taka rökræðu um málið, koma hér og segja við okkur: Þið eruð að fara út af sporinu hér og þar. Ef menn treysta sér ekki til þess er málatilbúnaðurinn ekki mjög traustur. Svo er það.