149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[05:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt það sem ég held að við höfum öll, sem höfum tekið þátt í þessari umræðu hér í kvöld og nótt, verið að reyna að varpa ljósi á, þ.e. hversu gríðarlegir hagsmunir felast í því að málið sem við ræðum núna fái vandaða umfjöllun og að við séum öll sannfærð um að niðurstaðan af málinu, þegar það er fullrætt, sé rétt og til þess fallin að tryggja hagsmuni ríkisins, þjóðarinnar, eins vel og við treystum okkur til og getum. Það held ég að sé mergurinn málsins. Það er alla vega það mótíf sem ég veit að þessi hópur, sem hefur tekið þátt í umræðunni hér frá því klukkan þrjú í gær, hefur. Það er ástæðan sem þessi hópur hefur til þess að halda áfram þessari umræðu þó einhliða sé — og vönduð er hún — til þess einmitt að varpa ljósi á og draga fram þá ábyrgð sem hvílir á okkur þingmönnum öllum, líka hinum 54 sem ekki hafa treyst sér til að taka þátt í umræðunni, þ.e. að fara vel og grundigt yfir mál sem okkur eru falin hér og komast að þeirri niðurstöðu sem við trúum einlæglega og höldum og treystum að sé sú réttasta og sú besta fyrir fólkið sem kaus okkur, þjóðina.

Þess vegna hvet ég enn til þess að umræðan og umfjöllunin um þetta mál verði heilsteyptari, vandaðri og meiri en hún virðist hafa verið til þessa í meðförum þingsins.