149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað snýr þetta að grundvallaratriðum. Staðreyndin er sú, hvort sem Miðflokkurinn er ósáttur við hvernig þáverandi stjórnvöld brugðu frá þeirri stefnu sem mörkuð var í forsætisráðherratíð hv. þingmanns eða ekki, var það gert og mönnum einfaldlega boðið upp á þann valkost að færu þeir út á þeirri stundu byðist tiltekið gengi, ella biði þeirra óvissa, vissulega. Það væri óvíst hvenær væri hægt að hleypa þeim út og á hvaða gengi það yrði og að þeir fjármunir yrðu meira og minna vaxtalausir á meðan, en það var valkosturinn sem boðið var upp á og þessi hópur þáði.

Allar okkar aðgerðir í kjölfar efnahagshrunsins byggðu á rökstuðningi um neyð. Þetta væri fordæmalaus staða í þjóðarbúinu. Það væri alveg ljóst að ekki væri hægt að takast á við þann vanda sem við væri að etja án þess að það hefði afdrifaríkar afleiðingar fyrir þjóðarbúið og því yrði að setja neyðarlögin eins og gert var. Þar var auðvitað grunnurinn lagður að þeim viðsnúningi sem við náðum og síðan með fjölmörgum aðgerðum sem gripið var til til að létta á aflandskrónuvandanum og á endanum taka á uppgjöri slitabúanna 2016.

Þess vegna vil ég bara ítreka það sem ég hef sagt áður: Aðstæður eru allt aðrar núna. Það er ekki sama efnahagslega váin fyrir hendi. Hér er á ferðinni hópur fjárfesta, hvort sem mönnum líkar við þá fjárfesta eða ekki, sem valdi þessa leið og á auðvitað eins og aðrir fjárfestar í landinu að búa við sömu reglur, jafnræði í stöðunni í dag en ekki að horfið sé til einhvers sem Miðflokkurinn óskar að væri uppi á borðunum núna.

Ég myndi vilja spyrja í fyrra andsvari hv. þingmann: Hvernig hyggst Miðflokkurinn skattleggja þetta fé sérstaklega þannig að það standist jafnræði gagnvart öðrum fjárfestum?