149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Einhverjar hljóta skýringarnar að vera, hvort sem þær lúta að því að stjórnvöld, í merkingunni ráðherrar og alþingismenn, hafi einfaldlega útvistað þessu verkefni eitthvað inn í kerfið, sem virðist ganga um sjálfala að miklu leyti þessa dagana eins og við sjáum t.d. á íslenska fjármálakerfinu og jafnvel ríkisbönkunum, eða það eru einhverjar pólitískar línur undirliggjandi. Þær hafa ekki birst hér í 15 klukkustunda langri umræðu vegna þess að það virðist enginn treysta sér, enginn þeirra sem styðja þetta mál, til að tala fyrir því, til að reyna að selja það, eins og menn hafa orðað það. Á meðan vitum við ekki hversu góðar eða slæmar ástæður liggja að baki þessu brotthvarfi frá því sem ákveðið hafði verið og hafði skilað ótrúlegum árangri. Hvers vegna eru menn að hverfa frá því núna? Við fáum engin svör við því. Menn treysta sér ekki til að verja þessi áform sem þeir vilja þó keyra í gegn.