149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er athyglisvert hvernig hann setur þetta fram og hárrétt. Ég verð að segja að ég var mjög hissa á málflutningi formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Óla Björns Kárasonar, hvað þetta varðar. Við sjáum bara hverjar aðstæðurnar eru í þjóðfélaginu í dag. Það er óvissa fram undan. Kjarasamningar eru lausir og reyndar búið að slíta viðræðum og það stefnir í verkföll og mikil óvissa hvað það varðar. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig gengið þróast og í framhaldi af þessu öllu saman er fyrirsjáanlegur samdráttur í efnahagslífinu. Við sjáum það í dagblöðum dagsins í dag að komnar eru uppsagnir í byggingargeiranum sem þýðir að það er að draga úr framkvæmdum. Það eru öll þessi teikn á lofti sem gera það að verkum að það er óvissa í efnahagslífinu. Á þeim sama tímapunkti er komið fram með frumvarp sem getur haft veruleg áhrif á efnahagslífið, á gengisþróunina, verðbólguþróun o.s.frv. Þá spyr maður: Hvers vegna er gengið fram svona hratt með þetta mál? Upphaflega var vonast til þess að hægt væri að ganga frá því á einum degi. Þá spyr maður: Eru einhverjir aðrir hagsmunir þarna á bak við sem við höfum ekki fengið upplýsingar um? Það væri fróðlegt að fá að vita það.

Það er erfitt að fá að vita hverjir eru eigendur þessara aflandskrónueigna sem á að fara að skipta í dýrmætan gjaldeyri og fara með úr landinu (Forseti hringir.) þannig að það er margt í þessu sem vekur spurningar.