149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[16:14]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um viðkvæmt álitaefni. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu sem snertir alla einhvern tíma á mannsævinni, lífslokin. Flutningsmaður mælir ekki fyrir þessari tillögu nú í þriðja sinn með það fyrir augum að samþykkt verði ein eða önnur stefna né talar hún eða aðrir flutningsmenn fyrir ákveðnum viðhorfum eða afstöðu þegar um þessi áleitnu og krefjandi málefni er að ræða, heldur er tilgangurinn sá að hvetja til umræðu í samfélaginu af yfirvegun og fordómalaust og án þess að fyllast heilagri vandlætingu fyrir fram.

Á lífsgöngunni kynnumst við flest með einum eða öðrum hætti þessari stund, þessum einstöku skilum, dauðastundinni, þessum ótrúlega og örfína þræði sem skilur að líf og dauða, þegar þráðurinn slitnar. Það er sama hvernig dauðann ber að, sömu djúpu tilfinningarnar gera vart við sig því að við erum að fást við ræturnar sjálfar, kvikuna, upphaf og endi.

Það er ekki að undra að skiptar skoðanir kunni að vera um þetta efni. Á okkar dögum hefur meðalaldur sífellt verið að hækka og læknavísindin finna stöðugt nýjar leiðir til að lengja líf sjúklinga. Þær raddir almennings heyrast sem kvíða því jafnvel og óttast að haldið verði í fólki lífi þrátt fyrir alvarlegan heilsubrest, elliglöp og líkamlega hrörnun og enga von um verðugt líf með reisn.

Umræða um þessi málefni hefur ekki verið mikil eða stöðug hér á landi í rauninni. Þó hefur það verið gert með nokkrum hléum. Það má vísa til þeirrar rannsóknar sem flutningsmaður gat um frá árinu 1997 og einnig er hægt að benda á könnun meðal landsmanna frá árinu 2001 og umfjöllun fræðasamfélagsins á þeim tíma og í áranna rás. Af og til hefur síðan verið um þetta fjallað en ekki náð að grípa landann þeim tökum sem við kannski kysum. Nokkur viðbrögð hafa þó verið við þessari umræðu og sérstaklega frá stofnun samtakanna Lífsvirðing sem stofnsett voru hér árið 2017, sem er félag um dánaraðstoð.

Virðulegur forseti. Mikil vitundarvakning hefur hins vegar átt sér stað um málefni dánaraðstoðar í löndunum í kringum okkur og fjöldi breytinga á regluverki hefur sést víða um réttinn til að fá aðstoð við að deyja. Innan evrópskra samfélaga má sjá að frá síðustu aldamótum hafa Holland, Belgía og Lúxemborg lögfest beina dánaraðstoð. Það eru einu Evrópuþjóðirnar sem heimila slíka aðstoð. Norðurlöndin hafa haldið mjög að sér höndum hvað varðar þetta efni.

Hugtakanotkun hefur líka breyst í þessu sambandi, eins og flutningsmaður kom inn á. Við notum ekki lengur gildishlaðin orð eins og líknardráp eða líknardauða, eða a.m.k. í miklu minna mæli. Dánaraðstoð er hugtak sem er milt, lýsandi og talsvert hlutlausara.

Lög um dánaraðstoð voru samþykkt í Hollandi haustið 2000. Strangar reglur gilda þar í landi um framkvæmd og hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi svo læknar megi aðstoða sjúkling sinn við að deyja. Læknir verður að vera sannfærður um að beiðni sjúklingsins sé sjálfviljug, yfirveguð og ígrunduð. Læknir verður að vera sannfærður um að þjáning sjúklingsins sé viðvarandi, ólæknandi og óbærileg. Læknir verður líka að hafa upplýst sjúklinginn um ástand sitt og horfur og að sjúklingurinn sé sannfærður um að engin önnur skynsamleg lausn sé til við ástandi hans. Þá er líka skilyrði að læknir hafi ráð ráðfært sig við a.m.k. einn annan óháðan lækni sem hefur séð sjúklinginn og veitt skriflegt álit. Viðeigandi líkn fylgi sömuleiðis þessu ferli.

Hollensku reglunum svipar raunar til ákvæða í íslenskum lögum um réttindi sjúklinga frá árinu 1997. Í 24. gr. er fjallað um rétt dauðvona sjúklinga til að deyja með reisn, með leyfi forseta:

„Dauðvona sjúklingur á rétt á að deyja með reisn. Gefi dauðvona sjúklingur ótvírætt til kynna að hann óski ekki eftir meðferð sem lengir líf hans eða tilraunum til endurlífgunar skal læknir virða þá ákvörðun.

Sé dauðvona sjúklingur of veikur andlega eða líkamlega til þess að geta tekið þátt í ákvörðun um meðferð skal læknir leitast við að hafa samráð við vandamenn sjúklings og samstarfsfólk sitt áður en hann ákveður framhald eða lok meðferðar.“

Virðulegur forseti. Þetta er ekki einfalt úrlausnarefni eins og fyrr hefur verið drepið á. Umræðan reynir á margvíslega þætti í okkar þróaða samfélagi, siðfræðilega þætti og álitamál, heimspekilega þætti, lögfræðilega og heilbrigðisþætti. Heimspekingar og heilbrigðisstéttir hér á landi hafa tekið þetta til umfjöllunar í sínum ranni. Þær horfa á viðfangsefnið hver frá sínum sjónarhóli. Þau viðhorf eru m.a. kynnt að sjúklingur geti ekki ætlast til þess að læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður svipti hann lífi og spurning hvort það sé nokkurn tíma réttmætt, hlutverk heilbrigðisstétta við þessar aðstæður sé að leitast við að líkna sjúklingi eins og kostur er, virða þarfir hans og tilfinningar og þegar manneskja eigi í hlut sé það mannúðleg meðferð að auðvelda henni að deyja vel og hindra ekki að kærkominn dauði á efsta degi eigi sér stað með eðlilegum hætti.

Svo heyrast hins vegar siðfræðilegar skoðanir sem benda á að á Íslandi hafi sjúklingar samkvæmt lagabókstafnum, eins og fyrr er nefnt, rétt til að hafna meðferð sem heldur þeim á lífi. Þar á meðal geti þeir hafnað lífsnauðsynlegri næringu. Því er spurt: Ef einstaklingar mega hafna lífsnauðsynlegri meðferð og þar með í raun ákveða að deyja fyrr, af hverju mega þeir þá ekki taka upplýsta ákvörðun um að deyja strax? Er fullorðinn og sjálfráða einstaklingur ræður því ekki sjálfur hvenær og hvernig hann deyr, hver á þá að ráða? Stjórnvöld? Trúarleg yfirvöld? Aðstandendur? Heilbrigðisstarfsfólk?

Virðulegur forseti. Álitamálin eru mörg og enginn vafi á að skoðanir eru skiptar. Í verkefnum sínum stendur heilbrigðisstarfsfólk iðulega frammi fyrir erfiðum aðstæðum og er gert að ráða fram úr þeim á faglegan og yfirvegaðan hátt í þágu sjúklinga sinna og í samræmi við viðurkennd læknisfræðileg markmið. Erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið í löndum þar sem dánaraðstoð er óheimil, eins og hér á landi, sýna að fjölmargir læknar ljúka lífi sjúklinga með of stórum lyfjaskömmtun í því skyni að lina þjáningar þeirra og sé fullljóst hvað það muni hafa í för með sér. Um leið er í annarri meðferð sem hugsanlega lengdi líf sjúklings oft hætt. Fátt bendir til að aðstæðum sé öðruvísi hagað hér á landi og því má ætla að óbein dánaraðstoð sé veitt þótt það sé kannski sjaldan viðurkennt.

Í leiðbeiningum landlæknisembættisins um takmörkun á meðferð við lok lífs, sem eru að grunninum til frá árinu 1996, er m.a. fjallað um líknandi meðferð. Líknandi meðferð byggist á því að þegar læknismeðferð sjúklings verður ekki lengur við komið fái hann meðferð sem miði að því að lina kvalir og viðhalda eftir föngum lífsgæðum. Lífslokameðferð er síðan lokastig líknarmeðferðar. Þá erum við að tala um mun skemmri tíma og teljum það almennt í dögum.

Líknarmeðferð hefur verið veitt á Íslandi í fjöldamörg ár. Líknardeild var t.d. opnuð í Kópavogi árið 1999 og var þá nýjung í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þessi þjónusta hefur þróast frá þeim tíma og er líknarmeðferð veitt á öllum heilbrigðisstofnunum landsins og með sama hætti á hjúkrunarheimilum.

Virðulegur forseti. Belgískur prófessor í læknasiðfræði sem hér var á ferðinni fyrir skömmu lét þau orð falla í blaðaviðtali að úr því að þjóð hans, Belgar, gæti verið með góða líknandi meðferð gæti hún líka samþykkt dánaraðstoð, það sé lykillinn að belgíska módelinu. Dánaraðstoðin varð til út frá líknandi meðferð og er nú orðin hluti hennar. Hann ráðleggur Íslendingum og hvetur til þess að við eigum yfirvegaða og almenna umræðu um þetta áleitna málefni. Þegar við höfum velt þessu vel fyrir okkur, rætt efnið ítarlega í fræðasamfélaginu og meðal almennings kann vel að fara svo að við gætum gert orð gestsins frá Belgíu að okkar þegar hann segir: Þetta snýst ekki um að enda líf, þetta snýst um að enda þjáningar.

Virðulegur forseti. Því er mikilvægt að við tökum umræðuna og að þessi ályktun verði samþykkt á hinu háa Alþingi en markmið hennar er, eins og segir í þingsályktunartillögunni, að „fela heilbrigðisráðherra að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð, sem og tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið“.