149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[16:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Tillaga þessi er lögð fram í þriðja sinn og snýst um dánaraðstoð eða líknardauða. Í því felst að binda enda á líf af ásetningi í því augnamiði að leysa viðkomandi undan óbærilegum sársauka eða þjáningu.

Tillagan stefnir að því að rannsaka lagaumhverfi dánaraðstoðar í löndum þar sem hún er lögleg. Auk þess er lagt til að gerð verði skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar.

Rétt er að geta þess að á síðasta ári kom út meistaraprófsritgerð í lögfræði eftir Arnar Vilhjálm Arnarsson um dánaraðstoð. Leiðbeinandi var Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Ritgerðin eða rannsóknin er vel unnin og hefur að geyma ágætisyfirlit yfir lagaumhverfi málsins í öðrum löndum. Þar er m.a. að finna samanburð á löggjöf og lagaframkvæmd í Hollandi og Belgíu, þar sem dánaraðstoð er leyfð. Einnig er umfjöllun um lagaframkvæmd í Sviss, þar sem bein dánaraðstoð er ólögleg meðan aðstoð læknis eða annars aðila við sjálfsvíg er á hinn bóginn lögleg. Þess háttar aðstoð er þar álitin vera þáttur í mannréttindum einstaklingsins fremur en læknisþjónusta.

Í þessari sömu ritgerð er einnig fjallað um ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og hvernig Mannréttindadómstóllinn hefur tekið á málum sem varða dánaraðstoð og aðrar lífslokameðferðir. Það er því nú þegar til ágætisefni hér á landi um dánaraðstoð, svo það sé sagt.

Herra forseti. Ég get ekki skilið þessa tillögu öðruvísi en svo, af tilgangi hennar að dæma, en flutningsmenn séu hlynntir dánaraðstoð. Það kom m.a. fram í máli hv. framsögumanns, hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, að henni hugnaðist best hollenska leiðin, eins og hún nefndi í ræðu sinni.

Að mínum dómi mætti skilja tillöguna á þann veg að hún sé í raun undirbúningur að lagafrumvarpi þess efnis að dánaraðstoð verði að veruleika hér á landi. Eins og kunnugt er er dánaraðstoð eða líknardráp óheimil hér á landi. Að aðstoða annan einstakling við að deyja varðar fangelsisrefsingu allt að þremur árum samkvæmt 213. gr. almennra hegningarlaga.

Ég skil þetta mál þannig, verði það samþykkt, að hugsanlega sé því aðeins tímaspursmál þar til umræður um að lögfesta rýmri rétt til að deyja verði teknar fyrir á Alþingi. Það hugnast mér ekki vegna þess að álitamálin eru mjög flókin og eiga sér siðferðislegar, faglegar, lagalegar og trúarlegar hliðar.

Innan evrópskra samfélaga má sjá að frá síðustu aldamótum hafa Holland, Belgía og Lúxemborg lögfest beina dánaraðstoð. Eru þau jafnframt einu Evrópuþjóðirnar sem heimila slíka aðstoð.

Siðfræðingar hér á landi hafa efast um að Alþingi ætti að samþykkja þingsályktunartillögu um dánaraðstoð. Bæði heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingar geta verið settir í mjög erfiðar aðstæður verði dánaraðstoð heimiluð. Benda þeir á að margar skyldur stangist á þegar kemur að dánaraðstoð. Málin vandast þegar sjúklingi stendur til boða læknisaðstoð sem hann hafnar. Heilbrigðisstarfsfólk sé sett í erfiða stöðu með ósk sjúklings og aðstandenda um að binda enda á líf hans.

Ég er þeirrar skoðunar að löggjafinn geti ekki sett starfsfólk í slíkar aðstæður. Ef dánaraðstoð er leyfð er jafnvel sá möguleiki til staðar að sjúklingum finnist að þetta sé eitthvað sem þeim beri að gera, þeir verði að hlífa fjölskyldunni, ef svo má að orði komast. Langvarandi veikindi eru sannarlega erfið en sá möguleiki á ekki að þurfa að vera uppi að auki að með dánaraðstoð sé hægt að hlífa fjölskyldunni.

Embætti landlæknis telur að það væri misráðið ef Íslendingar færðu umræðu um dánaraðstoð inn á Alþingi. Embættið segir umræðuna um þetta mál á öðrum Norðurlöndum fara fram á samnorrænum vettvangi utan þings og án þrýstings.

Landlæknir segir jafnframt að það yrði svo enn verra ef heilbrigðisráðherra og ráðuneytinu yrði falið að takast á við þetta verkefni þegar mörg önnur mikilvæg verkefni bíða lausnar í heilbrigðiskerfinu. Þetta kemur fram í umsögn hans um þingsályktunartillöguna. Embætti landlæknis mælir því eindregið gegn þessari tillögu.

Komið hefur fram af hálfu sérfræðinga í líknarmeðferð að mikilvægara sé að sjúklingur átti sig á réttindum sínum áður en rætt sé um að lögleiða dánaraðstoð hér á landi. Sjúklingar gera sér oft ekki grein fyrir því að þeir hafa ótakmarkaðan rétt til að hafna læknismeðferð. Óbeinn líknardauði, þ.e. þegar fólk afþakkar meðferð og flýtir þannig dauðastundinni, er leyfilegur hér á landi. Rétturinn til að hafna og hætta líknandi meðferð er lögfestur í 8. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 94/1997. Í 1. mgr. 24. gr. sömu laga segir, með leyfi forseta:

„Dauðvona sjúklingur á rétt á að deyja með reisn. Gefi dauðvona sjúklingur ótvírætt til kynna að hann óski ekki eftir meðferð sem lengir líf hans eða tilraunum til endurlífgunar skal læknir virða þá ákvörðun.“

Einnig hefur komið fram af hálfu líknar- og hjúkrunarfræðinga að innan ramma núgildandi löggjafar sé hægt að bæta lífslokameðferð. Sjúklingar geta til að mynda óskað eftir því að verða ekki endurlífgaðir ef þeir deyja náttúrulegum dauðdaga og geta óskað eftir því að fá ekki næringu. Einnig benda þeir á að bæta þurfi líknarmeðferð á hjúkrunarheimilum, en með henni eru þjáningar sjúklinga linaðar með lyfjum en líf þeirra hvorki lengt né stytt.

Af þessu má sjá að fagaðilar mæla gegn þessari tillögu og telja brýnna að bæta upplýsingagjöf til sjúklinga hvað réttindi þeirra varðar og bæta líknandi meðferð.

Jón G. Snædal, sérfræðingur í öldrunarlækningum og fyrrverandi formaður siðaráðs lækna, segir lækna almennt ekki hlynnta dánaraðstoð og að siðfræðiráð norrænu læknafélaganna hafi í gegnum tíðina tekið afstöðu gegn líknardrápi. Læknirinn sem hefur það hlutverk að annast líf og heilbrigði fólks yrði settur í mjög sérkennilegt hlutverk ef hann ætti að taka líf. Jón G. Snædal segir óvissuna helstu rökin gegn því að leyfa líknaraðstoð. Í læknisfræðinni sé alltaf óvissa tengd greiningum og meðferð. Ef líknardráp yrðu lögleidd gætu því komið upp vafasöm tilvik. Þá segir hann að oft ríki óvissa um hæfni hins veika til að láta í ljós vilja sinn. Jafnvel þó að farið yrði í gegnum mikið ráðgjafar- og matsferli yrði aldrei hægt að tryggja alveg að þunglyndi eða annað ástand sem hægt er að meðhöndla hafi ráðið vali hans um að óska eftir dánaraðstoð.

Björn Einarsson, öldrunarlæknir og heimspekingur, komst svo að orði í grein sinni um dánaraðstoð í Læknablaðinu árið 2016, með leyfi forseta:

„Sá sem tekur eigið líf á engan rétt á að vera aðstoðaður við það, því slíka skyldu er ekki hægt að leggja á nokkurn mann. Það er ekki hægt að krefja lækni eða annan heilbrigðisstarfsmann um að framkvæma líknardráp ef það stríðir gegn samvisku hans. Það stríðir gegn eðli læknisstarfsins og læknaeiðnum, að virða mannslíf, mannúð og mannhelgi.“

Auk þess gæti sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á að þróa og bæta líknandi meðferð orðið veikari verði aðrar leiðir lögleiddar. Einnig hefur skortur á sálfræðiaðstoð við þá sem eru deyjandi verið gagnrýndur.

Herra forseti. Ég ætla að fá að ljúka ræðu minni — ég sé að tíminn er búinn — (Forseti hringir.) í næstu umferð og óska eftir að verða settur á mælendaskrá aftur.