149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:40]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir andsvarið. Mögulega gæti ástæðan verið sú, hv. þingmaður, að ekki hefur verið treystandi á ýmislegt samkomulag sem gert hefur verið á undanförnum árum sem snýr að þessu, samanber þegar menn sömdu um að friður væri um málefni Reykjavíkurflugvallar meðan Rögnunefndin starfaði. Það var aldrei þannig. Auglýst var nýtt deiliskipulag í Reykjavík fyrir Vatnsmýrina sex eða átta vikum eftir að samkomulagið var gert. Getur verið að það ríki ákveðið vantraust gagnvart því hvernig menn hafa farið með málið á síðustu árum, einmitt í Reykjavík?

Ýmislegt hefur komið fram, t.d. eins og ég benti á í umræðunni áðan, að flugöryggismál og önnur öryggismál þjóðarinnar hafa ekki verið höfð inni í vinnu Reykjavíkurborgar á undanförnum árum, eins og fram kom (Forseti hringir.) í viðtali við borgarstjóra í Morgunblaðinu í desember.