149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:44]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hans framsögu og að standa fyrir þessu mikilvæga máli. Umræðan hér fer svolítið mikið út í skipulagsmálin og hvort verið sé að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum, sem ég tek undir að er mjög viðkvæmt mál og þarf að fara varlega í. Þess vegna vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi eitthvað í gegnum þetta langa ferli sitt í þessu máli komið inn á hlutverk höfuðborgarinnar sem höfuðborgar og hvort það breyti einhverju í stöðunni í skipulagsmálunum. Hér er stjórnsýslan og höfuðborgin hefur einhverjum skyldum að gegna sem höfuðborg. Getur það verið hluti af þeim skyldum að taka mark á þörfum landsbyggðarinnar sem þarf að sækja hingað þjónustu, til höfuðborgar landsbyggðarinnar? Svo náttúrlega tengjast loftslagsmálin inn í þetta líka og kannski getur hann komið inn á það.