149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:48]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara hið besta mál að flogið sé bæði frá Keflavík og Reykjavíkurflugvelli um landið. Það hafa verið gerðar tilraunir á síðustu árum til að fljúga einmitt frá Keflavíkurflugvelli beint til Akureyrar tengt millilandafluginu. Það hefur bara ekki gengið allt of vel. Í skýrslunni sem við í starfshópnum skiluðum af okkur í byrjun desember um uppbyggingu flugvalla og innanlandsflugsins er ein tillagan þar einmitt um að tollyfirvöld og Isavia nái saman um það hvernig væri hægt að sinna þessu betur. Það gæti verið einhver akkillesarhæll en almennt hefur þetta flug gengið mjög erfiðlega.

Það kemur fram í þeim skýrslum sem hafa verið gerðar um Reykjavíkurflugvöll á síðustu árum að menn telja að ef t.d. flugið yrði flutt frá Reykjavík til Keflavíkur myndi draga úr því um 30–40% og í rauninni myndu allar forsendur fyrir því eins og við þekkjum það í dag detta upp fyrir.

Ég ætla rétt að nefna, hef nokkrar sekúndur, að á vegum samgönguráðuneytisins er verið að skoða nýjan flugvöll í Hvassahrauni, (Forseti hringir.) svo ég svari spurningu síðan áðan. Sú vinna er í gangi, menn hafa verið að skoða fleiri kosti, svo það sé sagt.