149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég get fært forseta og þingheimi öllum þær gleðifréttir að borist hefur svar við fyrirspurn minni frá hæstv. utanríkisráðherra sem lögð var fram 16. október. Fimm sinnum þurfti að fá frest til að svara. Sætir það nú svolítilli furðu.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur fjallað mikið um tækifærin sem felist í Brexit. Hann hefur verið mjög duglegur við að fara yfir það að hann eigi mikil og góð samskipti við bresk stjórnvöld. Í fjölmiðlum undanfarna mánuði hefur mátt lesa að verið væri að ganga frá samkomulagi við Breta um réttindi íslenskra borgara í Bretlandi.

Það kemur manni örlítið á óvart að það skuli hafa tekið allan þennan tíma að útbúa þetta svar. Niðurlag svarsins er að það hafi tekið 20 vinnustundir að taka svarið saman. Það finnst mér með nokkrum ólíkindum miðað við allt það sem ráðuneytið segist hafa verið að gera og allt sem ráðuneytið veit, að það taki 20 klukkustundir að draga það saman sem þegar er búið að segja í fjölmiðlum.

En stærstu tíðindin eru þau að íslenskir ríkisborgarar í Bretlandi búa við algera óvissu um hvað tekur við varðandi réttindi þeirra eftir árið 2020. Miðað við yfirlýsingar bresku ríkisstjórnarinnar um innflytjendastefnu hennar eftir þann tíma er alveg ljóst að réttindi íslenskra borgara til að búa, starfa og nema í Bretlandi verða verri en fyrir Brexit. Það eru nú öll tækifærin.