149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg):

Herra forseti. Síðasta sumar reyndi ég að saga af mér puttann, reyndar ekki viljandi, það var óvart. Ég var staddur austur í Fljótshlíð og þurfti þá að fara 10 km leið á heilsugæslu til að láta sauma puttann á mig. Þar kom ég að lokuðum dyrum.

Þá fór ég á lögreglustöðina og þar sögðu mér lögreglumenn að ég fengi ekki læknisþjónustu í Rangárvallasýslu eftir kvöldmat, það myndi enginn sauma mig þar. Ég fór því í sjúkrabíl 50 km leið á Selfoss fram hjá heilsugæslunni á Hellu í leiðinni þar sem ég var saumaður saman.

Það vill svo til að ég bjó í Fljótshlíð fyrir 15 árum. Þá var hægt að sauma mig saman allan sólarhringinn og alla mína fjölskyldu og bregðast við öllum mínum vandamálum. Ég get alveg fullyrt að heilsa fólks í Rangárvallasýslu hefur ekkert batnað mikið á þessum 15 árum og fólki hefur ekki fækkað, því hefur fjölgað, það eru fleiri ferðamenn. Þetta er sá staður á landinu þar sem hvað alvarlegustu umferðarslysin hafa orðið á undanförnum árum. Það merkilega er að sjúkrabíllinn sem flutti mig frá Hvolsvelli á Selfoss er líka farinn, hann er farinn frá Hvolsvelli þannig að það er enn lengri útkallstími fyrir sjúkrabifreið. Við erum búin að heyra um slys undir Eyjafjöllum og nálægt Vík undanfarnar vikur.

Þetta er auðvitað engin þjónusta fyrir íbúa á þessu svæði og engin þjónusta fyrir þær þúsundir ferðamanna sem fara um Rangárvallasýslu. Mér var reyndar sagt af lögreglumanninum að ef ég hefði verið meira slasaður hefði læknirinn komið og úrskurðað mig látinn, það væri það eina sem hann myndi gera eftir kvöldmat.