149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Um helgina hitti ég konu sem sagðist hafa miklar áhyggjur af því að hér yrði annað hrun út af fréttum síðustu missera af hækkun íbúðaverðs, valtri stöðu flugfélaga og aukinni verðbólgu. Þessi kona ákvað að selja húsið og minnka við sig og minnka þannig skuldirnar.

Nú ætla ég ekki að mæla með því að við séum almennt mikið skuldug og það er alltaf gott að losa um skuldir en það er engin ástæða til að örvænta. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun mættu fulltrúar Hagstofunnar og gerðu grein fyrir endurskoðaðri þjóðhagsspá. Þar er m.a. talað um að efnahagslegar undirstöður heimilanna verði áfram traustar. Eigið fé heimilanna að undanskildum lífeyrisréttindum var um 157% af vergri landsframleiðslu árið 2017 og hefur hlutfallið ekki verið hærra síðastliðin 20 ár.

Skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru nú um 75% og er það lægsta gildi frá árinu 2003. Til samanburðar nam meðaltal skulda heimila annarra Norðurlanda um 105%. Íslensku heimilin eru líka með næstlægsta hlutfall skulda af ráðstöfunartekjum á eftir Finnum, en Danir, Svíar og Norðmenn eru allir yfir okkur í því hlutfalli.

Við vitum að toppnum á hagsveiflunni er náð og að allt sem fer upp fer líka niður. Aftur segi ég að það sé engin ástæða til að örvænta en við þurfum að ná mjúkri lendingu. Til þess þurfum við öll að leggjast á eitt. Við þurfum að stuðla að ábyrgum ríkisfjármálum og aðilar vinnumarkaðarins þurfa að ná samningum hið fyrsta, samningum sem raska ekki stöðugleika og ýta ekki undir verðbólguskot.