149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

104. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég ætla að hafa þessa ræðu stutta, enda málið ákaflega einfalt. Hér er lagt til að stimpilgjöld verði lögð niður í heild sinni sem skattur í tveimur áföngum, með því að helminga núverandi skattstofn 1. janúar 2019, sem reyndar þarf þá einhverrar skoðunar við í ljósi þess að ekki var mælt fyrir þessu í haust, og felldur niður að fullu frá og með 1. janúar 2020. Ástæðurnar eru einfaldar. Hér er um eins konar eignarskatt að ræða sem hefur ekkert að gera með þær tekjur sem þessar eignir skapa. Þetta er íþyngjandi fyrir húsnæðiskaupendur, gerir fasteignaviðskipti kostnaðarsamari og erfiðari en ella og endurspeglar ekki á nokkurn hátt neinn þann kostnað sem hið opinbera hefur af því að þinglýsa þessum viðskiptum.

Þegar kemur að atvinnulífinu mismunar þetta atvinnugreinum sömuleiðis því að enn og aftur ræðst skatturinn ekki af tekjumyndun viðkomandi fyrirtækja, hann leggst með mjög mismunandi hætti á einstakar atvinnugreinar eftir því hvort þær eru með mikið fjármagn bundið í fasteignum eða ekki. Að lokum leggst þetta líka á skip og þar með rekstur útgerða eða skipafélaga. En enn og aftur tekur það heldur ekkert mið af þeim tekjum sem eignirnar skapa. Það er einfalt í þessu samhengi að horfa til þess að við viljum hafa hér sem einfaldast skattkerfi sem byggir á breiðum en fáum skattstofnum og eðlilegt að þegar verið er að skattleggja tekjur eða hagnað fyrirtækja sé reynt að stilla skattlagningu í hóf og hafa hana einfalda en ekki leggja skatta á fasteignir fyrirtækjanna eða viðskipti með þær. Það sama má segja um einstaklingana.

Þegar hefur verið mælt fyrir máli sem leggur til afnám stimpilgjalds á fasteignaviðskipti að fullu. Eðli máls samkvæmt styð ég það mál heils hugar. Jafnframt liggur fyrir að mælt mun verða fyrir máli síðar, væntanlega á þessu þingi, þar sem lagt er til að stimpilgjald verði fellt af skipaviðskiptum. Eðli máls samkvæmt gefur augaleið að ég styð það mál líka. Þessi skattur er tímaskekkja og löngu orðið tímabært að afnema hann.

Ég legg til að málinu verði að lokinni umræðunni vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar eins og því máli sem mælt var fyrir fyrr í dag.