149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[16:05]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur og hef svo sem ekki mörgu við þetta að bæta. Ég er almennt á því að Íslendingar eigi að vera sem allra mest þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi, þeir eigi að fullgilda alla þá samninga sem eru í boði. Ég held líka að það sé mikilvægt að við hugum að vernd menningarverðmæta. Við þurfum líka að koma því inn í almannavarnaáætlanir. Svona samningur myndi kannski þrýsta á það og vekja okkur til umhugsunar um það.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég held að Þjóðskjalasafnið væri mjög hentugur vettvangur til að halda utan um skráninguna. Ég held að þar sé til bæði þekking og mannafli. Ég veit ekki til þess að til sé heildstæð skrá þó að það séu náttúrlega til skrár víða um land, í einstökum söfnum, sem þyrfti þá að steypa í eina heildstæða skrá. En slík vinna þarf að fara fram. Það yrði þjóðþrifaverk.