149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Tilgangur frumvarpsins er í stuttu máli sá að fyrst og fremst sé um að ræða sérverslanir með áfengi, ekki matvöruverslanir, ekki þar sem áfengi verði einhvers konar aukavara í viðkomandi verslun, þetta sé vínbúð en sem slíkri heimilt að selja kannski einhverjar skyldar vörur í óverulegum mæli. Tilgangur verslunarinnar er rekstur vínverslunar, ekki verslunar með matvöru eða annars konar vörur. Það stendur ekki til.

Varðandi auglýsingaákvæðin er hugsunin sótt í leiðbeiningar og áðurnefnda gerð frá Evrópusambandinu um að allar áfengisauglýsingar, þar með taldar um léttöl sem vísað er oft til sem ígildi áfengisauglýsinga, falli undir sömu reglur. (Forseti hringir.) Reglurnar snúa fyrst og fremst að því að áfengi sé ekki dregið upp í jákvæðu ljósi eða beint sérstaklega að ungu fólki.