149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:32]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Því er fljótsvarað. Mér finnst að einkaaðilar eigi ekkert að græða meira. Ég og hv. þingmaður erum kannski hvor á sínum endanum í pólitík og ég er frekar mikið fyrir góð og mikil umsvif ríkisins, það er alveg rétt. Hv. þingmaður kemur inn á að það sé fullt af fólki sem drekkur hóflega og fer vel með vín. Ég skil ekki að það fólk sé þessi mikli þrýstihópur á að hafa vín víðar. Það hefur komið fram áður að ég hef starfað sem lögreglumaður og kannski einmitt horft á fólk, dagfarsprúða heimilisfeður og -mæður, sem kann fótum sínum ekki forráð leggja af stað um kvöld í fínt matarboð, fá sér dýrt rauðvín og enda svo ósjálfbjarga á Lækjartorgi. Það er allt of stór hluti af fólki sem kann ekki að fara með vín. Hv. þingmaður minntist kannski ekki á það en það er gjarnan talað um að útlendingar vilji endilega hafa svo mikinn aðgang að víni. Ég hef ekki heldur orðið var við miklar mótmælagöngur ferðamanna hér, að þeir hafi ekki aðgang að víni. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann kvarta yfir aðgangi að víni. Þetta snýst þá bara um að við erum ósammála um það hver eigi að græða á að selja vín á Íslandi.

Ég kæri mig ekki um að einkaaðilar, sem nú þegar eru með markaðsráðandi stöðu, fari að græða enn meiri pening á því að fá að selja brennivín.