149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:59]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ánægjuefni að fá að stíga hér í ræðustól í dag og fjalla um þetta mikilvæga efni. Þetta er ekki lítið málefni sem við fjöllum um og hagsmunirnir eru miklir í víðtækum skilningi. Þetta fangar ýmis málefni sem varða þjóðina. Það eru hin atvinnulegu sjónarmið, hin byggðalegu sjónarmið, mannlífið allt í landinu og síðast en ekki síst hin umhverfislegu sjónarmið sem varða mestu. Ég leyfi mér að taka undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni þegar hann nefnir að við eigum að byggja fyrst og síðast á niðurstöðum og rannsóknum vísindamanna og viðurkenndum vinnubrögðum.

Mig langar að velta vöngum yfir örfáum atriðum í þessu frumvarpi sem er raunar þriðja útgáfa frumvarps um málefnið. Það hefur tekið talsverðum breytingum frá því að fyrsta frumvarp var kynnt en þessi útgáfa er svona snurfusuð útgáfa af annarri útgáfunni. Mig langar að staldra fyrst við 1. gr. laganna þar sem fjallað er um skilgreiningar. Í 1. tölulið b-liðar er fjallað um áhættumat erfðablöndunar, en erfðablöndun er auðvitað áhættan á því að eldislax blandist villtum laxi. Inn í skilgreininguna hefur verið skotið nýrri setningu sem er gleðiefni og til þess að styrkja málið þar sem segir:

„Mat á því magni frjórra eldislaxa sem strjúka úr eldi í sjó og vænta má að komi í ár þar sem villta laxastofna er að finna og þar sem metið er hvenær erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða …“

Þetta atriði var einmitt gagnrýnt mjög í skýrslu þeirri sem kom fram í ágúst á síðasta ári, skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi, því að í niðurstöðum hópsins var ekki tekið tillit til mótvægisaðgerða. Það er talið að mótvægisaðgerðir geti skipt miklu máli, eins og þær, svo tvö dæmi séu tekin, hversu stór laxinn er þegar hann fer út í kvíarnar og vöktun á ánum. Þetta getur skipt máli. Það er því til þess að styrkja málið, held ég, að þetta er komið inn.

Hér bar á góma hvað væri villtur laxastofn. Það er svo sem skilgreint hér, en hvað varðar laxeldið á Vestfjörðum hafa menn auðvitað tekist svolítið á um hvað sé villtur lax og hvað ekki. Það eru líklega tvær ár á þessu svæði sem menn hafa fjallað um og talið að séu á viðkvæmu svæði og séu með villtan lax, en fullorðnir og staðkunnugir menn segja að í þeirra barnæsku hafi ekki verið nokkuð kvikt í þessum ám og að þær hafi verið ræktaðar upp. Þess vegna er nú spurt: Hvað er hinn náttúrulegi lax og hvað er villtur lax?

Mig langar aðeins að drepa á atriði í 2. gr. frumvarpsins, um samráðsnefnd um fiskeldi sem ráðherra skipi til fjögurra ára í senn og eigi að vera ráðherra til ráðuneytis varðandi fiskeldismál. Þar er fjallað um hverjir sitja í þessari nefnd. Þetta er fimm manna nefnd og menn hafa fundið dálítið að því að þetta er samráðsnefnd sem er skipuð hagsmunaaðilum í mestum mæli. Þarna er t.d. enginn sem kalla má fulltrúa umhverfisins. Hvar er sá fulltrúi? (Gripið fram í: Hafró.) Kann að vera. Svo benda menn líka á hvort verið sé að mynda einhverja óeðlilega pressu á Hafrannsóknastofnun og hvort hægt sé að líta á þennan hóp sem þrýstihóp hagsmunaaðila og hvort verið sé að lögfesta þar með tilvist þessa þrýstihóps.

Mig langar líka að staldra við áhættumat erfðablöndunar í 7. gr. þar sem segir að Hafrannsóknastofnun skuli gera tillögu til ráðherra um það magn frjórra laxa, sem mælist í lífmassa, sem heimila skal. Þetta atriði kom til mikillar umfjöllunar varðandi skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá því í fyrrahaust. Menn báru á það brigður að þetta áhættumat væri áreiðanlegt og væri viðurkennt og þrautreynt. Þess vegna er mjög mikilvægt að þær vinnuaðferðir sem notaðar eru séu viðurkenndar og jafnvel framkvæmdar af óháðum aðilum, ekki endanlega Íslendingum en óháðum aðilum þar sem unnið er með viðurkennd líkön. Þetta líkan sem menn studdust við var búið til á Íslandi og ekki mikil reynsla komin á það og menn báru á það brigður.

Í frumvarpinu er ekkert tekið á því, held ég að megi segja, hvernig farið er með það þegar fyrirtæki láta af starfsemi sinni og skyldur þeirra til að hirða upp tæki sín og tól. Það kann að vera að það sé misskilningur og kann að vera að almenn löggjöf geri þetta að skyldu. En í norsku regluverki er mjög stíft kveðið á um þetta. Það er getið um það í frumvarpinu að áreiðanleiki fyrirtækja skuli vera nokkur og talaði um að 30% eiginfjárhlutfall skuli vera það minnsta til þess að þau komi til álita sem áreiðanlegur samstarfsaðili.

Með þessari löggjöf er gert ráð fyrir því að Matvælastofnun gegni mikilvægu hlutverki. Við vitum hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig til þessa og munum eftir því þegar óhapp varð vestur á fjörðum fyrir nokkrum mánuðum. Það tók fulltrúa Matvælastofnunar hátt á aðra viku að komast vestur til að ganga úr skugga um hvernig aðstæður væru. Það er umhugsunarefni hvort fyrirhugað er að styrkja bæði Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun í hlutverkum sínum ef þetta frumvarp verður að veruleika. Við höfum raunar fram að þessu búið við aðstæður eins og í villta vestrinu. Menn ræða stundum málin eins og fiskeldi sé á algjöru frumstigi. Það hefur verið við lýði í allnokkur ár og hefur vaxið gríðarlega og þrýstingurinn á enn frekari vöxt hefur verið mikill. Það er náttúrlega slæmt að lögin skuli ekki vera komin fram fyrr en nú, en betra er seint en ekki.

Auðvitað hefðum við viljað ræða samhliða mikilvæga þætti eins og gjaldtökuna fyrir þetta og ég vona að það verði í framhaldinu. Það sem þó er rætt hér og varðar gjaldtöku er leyfisgjald sem borgað er reglulega, væntanlega árlega, og þar er stuðst við einhverja mynt, ef ég skil þetta rétt, SDR. Ég velti vöngum yfir því vegna hvers menn binda það við einhverja ákveðna mynt. Af hverju styðjast menn ekki við eitthvert hlutfall af verðmætum sem koma upp úr hafinu? (Gripið fram í: Viltu bara nota krónuna?) Ja, helst ekki krónuna, en eitthvert hlutfall þannig að það haldi hugsanlega verðgildi sínu. Krónan er hverful, eins og hæstv. ráðherra þekkir. Gengi hennar hefur verið á dálítilli hreyfingu á okkar lífaldri.

Ég ætla svo sem ekki að fjalla meira beinlínis um þetta frumvarp. Það bíður vandlegrar umfjöllunar nefndar sem því miður er ekki viðstödd þessa umræðu. Það verður vonandi fróðlegt að sjá hvernig því lyktar. Það má kannski segja almennt um þetta frumvarp ráðherra að þar er skautað alfarið yfir þá grundvallarspurningu hvort sjókvíaeldi við strendur Íslands sé yfir höfuð réttlætanlegt vegna þeirrar ógnar sem lífríki landsins kunni e.t.v. að standa af því. Kannski er talið að þeirri spurningu hafi þegar verið svarað. Þættirnir sem menn eru uggandi yfir eru umhverfisþátturinn og það mikilvæga atriði að eftirlitið, umgjörðin, verði tryggt og vöktunin eins og fara gerir í siðmenntuðu ríki. Það er grundvallaratriði að eftirlitsstofnanir hafi starfsviðveru á þeim stöðum þar sem starfsemin fer fram.

Virðulegur forseti. Það eru miklar svæðisbundnar væntingar bundnar við þetta frumvarp og framtíð fiskeldis. Við þurfum sem þjóðfélag á því að halda að auka verðmætasköpun, auka útflutning, bæta lífskjörin og í því sambandi þurfum við að huga að okkar sameiginlegu sjóðum, að þetta skili sér til þess að við getum byggt áfram upp velferðarkerfi okkar. Því hefur verið fleygt að við þurfum að auka útflutningsverðmæti okkar um 1.000 milljarða á næstu 20 árum. Það þýðir um 50 milljarða á ári eða 1 milljarð á viku og það getum við auðvitað gert. Tækifærin eru fjölmörg og við eigum þúsund möguleika og miklu fleiri möguleika en við höfum ímyndunarafl til að kynna á þessari stundu. Einn þeirra er þessi leið, fiskeldi, laxeldi og vinnsla úr þeim afurðum sem það gefur af sér, en við verðum að fara varlega.

Eins og ég nefndi erum við komin vel áleiðis í þessu. Það er talið að laxeldisframleiðslan ein og sér hér á landi geti numið 12–15 milljörðum núna og að á næsta ári geti þetta orðið 23 milljarðar. Þá er ekki talin framleiðsla á öðrum tegundum því að við erum í ýmislegu öðru eldi, svo sem á bleikju, regnbogasilungi, Senegalflúru og í hrognkelsaseiðaframleiðslu. Þetta er lofandi atvinnuvegur á mjög margan hátt. Það skiptir ekki síst máli núna þegar (Forseti hringir.) við horfum kannski fram á þverrandi tekjur af hefðbundnum sjávarútvegsútflutningi, vonandi er það tímabundið, og eins varðandi ferðaþjónustuna, að við tökum markviss og skynsamleg skref á þessari braut en það verður auðvitað að vera á forsendum náttúrunnar.