149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir mjög svo góða framsögu. Ég myndi segja að ég væri bæði þakklát fyrir það sem þar kom fram og sammála hv. þingmanni, t.d. þegar við tölum um að koma umræðunni um laxeldi upp úr skotgröfunum. Ég tel það náttúrlega afskaplega mikils virði.

Mig langar til að fjalla stuttlega um ferð mína á vegum Vestnorræna ráðsins. Við heimsóttum Færeyjar í fyrra, vorum um stund í Þórshöfn og fengum að líta þar laxeldi Færeyinga, sem hefur margfaldast og er í rauninni farið að skila því þjóðarbúi mörgum sinnum meiri tekjum en annar veiðiskapur.

Við vitum hvernig það er í samfélaginu, eins og kemur fram, að þessu er skipt í tvær fylkingar, þ.e. þeirra sem eru með laxeldi og hinna sem eru á móti. Það sem við erum að freistast til að gera hér og nú er að reyna að sameina þau sjónarmið að því leyti til að reyna að koma með einhverjar rökrænar ályktanir um hvernig má í raun og veru samlaga hvort tveggja þannig að hafið sé yfir allan vafa að við meinum vel og viljum gera vel. Við þurfum virkilega á því að halda að efla laxeldið í landinu.

Áður en ég ætla að fara með þá frábæru hugleiðingu sem ég var búin að skrifa langar mig að segja að Færeyingar eru búnir að tileinka sér algerlega þetta norska kerfi, sem hv. atvinnuveganefnd fékk að kynnast núna í ferð sinni í síðustu viku, nema hvað það hentaði ekki fullkomlega. Þar eru öðruvísi stefnur og straumar í sjónum, fyrir utan það að kyrrir, djúpir firðir í Noregi eru engan veginn sambærilegir því sem Færeyingarnir eru með á sínum borðum, frekar en að það sé eins hjá okkur og Færeyingum eða Norðmönnum. Við þurfum alltaf að finna réttu leiðina og feta sporin eins og hentar okkur. Við erum með fínustu strauma hér sem ná vel að hreinsa til.

En sú vá sem fyrir liggur og er talað mikið um, laxalúsin, mengunin undir kvíunum og erfðablöndun við sleppingar, er það sem helst hefur staðið í andstæðingum laxeldis, þeirra sem berjast gegn laxeldi. Við verðum líka að skilja sjónarmið þeirra.

Bændur úti á landsbyggðinni eiga gríðarlegra hagsmuna að gæta í því að við vöndum okkur það vel að við komum ekki á einhverjum tímapunkti til með að orsaka það að við berum ábyrgð á því að hafa skemmt þá miklu grósku sem er á landsbyggðinni hvað varðar veiðirétt í ám þar, sem hefur skilað náttúrlega gríðarlegum hagnaði til þeirra sem eiga og til okkar í þjóðarbúinu.

Það eru ýmis smáatriði í sambandi við frumvarpið sem mér finnst ekki nógu skýr. En ég ætla að koma fyrst með stutta hugvekju um frumvarpið, um breytingar á ýmsum lagaákvæðum. Því segi ég:

Í dag er fiskeldi í opnum sjókvíum umhverfisvænasta matvælaframleiðsla sem þekkist í heiminum. Mikilvægt er að með lagafrumvarpi þessu sé verið að innramma atvinnugreinina með áherslum á samfélag, uppbyggingu, umhverfi og þekkingu. Við lifum á tímum þar sem við okkur blasa stórar og krefjandi áskoranir. Ein þeirra er fjölgun mannkyns. Til að hægt verði að anna þeirri fjölgun og fæðuframboði er nauðsynlegt að ráðast í umhverfisvænar aðgerðir þar sem við etjum á sama tíma kappi við að hægja á hlýnun jarðar og súrnun sjávar. Sjókvíaeldi styður við slíkar aðgerðir og er tími til kominn að nýta betur bláa akra hafsins. Aldrei hefur verið mikilvægara að huga að umhverfisvænni matvælaframleiðslu en einmitt nú.

Fiskeldi í sjó hefur lágan fóðurstuðul. Fæðan inniheldur góða orku og næringu, framleiðslunýtingin er afburðagóð og kolefnissporið grunnt og hægt er að jafna það enn frekar. Fiskeldi í sjó fellur undir eitt af 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og það segir okkur mikið um atvinnugreinina sem er komin til að vera.

Á Íslandi eru kjöraðstæður til fiskeldis í sjó. Nú þegar er búið að afmarka þau svæði þar sem starfsemi er leyfileg út frá fjarlægð við villta laxastofna. Það er mestmegnis á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði. Á Vestfjörðum hefur tekist að snúa við þeirri öru fólksfækkun sem hefur átt sér stað síðustu ár og áratugi og rekja má þann viðsnúning til fiskeldis og greinin á enn mikið inni þar. Vaxtarmöguleikar greinarinnar, atvinnutækifæri og innviðauppbygging sveitarfélaga er rétt að skjóta rótum og því er mikilvægt að halda rétt á spöðunum og hlúa vel að greininni sem hefur alla burði til að gefa vel af sér í samfélaginu og í hagrænu samhengi en þó með umhverfissjónarmiðin ávallt að leiðarljósi. Náttúran á sem sagt ávallt að njóta vafans.

Þá langar mig að vísa í skelfilega mynd sem við sáum á RÚV í fyrra og þjóðin stóð á öndinni yfir þar sem var verið að sýna einhliða meira og minna að lífríki úti um alla jörð væri ónýtt þar sem laxeldi hafði komið til. Það er dapurlegt þegar við fáum svona einhliða sýnishorn af hlutum eins og þeir verst geta farið.

Ég ætla að halda áfram, hæstv. forseti:

Byggðir sem skilgreindar hafa verið sem brothættar byggðir ná að blómstra og mikið er um að ungt fólk sæki aftur til sinna heimahaga þar sem í dag hefur það tækifæri til að starfa við menntun sína í heimabyggð. Fiskeldið krefst nefnilega menntaðs fólks og um 80% starfa eru á landsbyggðinni. Mun það ekki akkúrat koma til móts við það sem við höfum verið að horfa á, þá þróun sem hefur verið einmitt á landsbyggðinni upp á síðkastið, síðustu árin, sérstaklega í kjölfarið á framsali kvótans þar sem við horfum á brothættar byggðir, horfum á litlu sjávarplássin allt í kringum landið vera hreinlega að fjara út?

Þar tala ég sem Ólafsfirðingur og horfi upp á hvernig litla byggðarlagið mitt, litla sjávarplássið mitt, er eiginlega á fallandi fæti. Það er sorglegt þar sem íbúafjöldinn hefur farið úr rúmlega 1.300 manns frá því 1994, þegar ég flyt hingað, niður í 760 íbúa núna og aldrei verið færri frá því að Ólafsfjörður fékk kaupstaðarréttindi áður en ég fæddist. Og er ég komin af léttasta skeiði eins og á grönum má sjá.

En beinu störfin ala einnig af sér jafn mörg óbein störf. Því er ljóst að um gríðarlega atvinnusköpun er að ræða á þeim svæðum sem eiga hvað mest undir högg að sækja.

Ég ætla að nefna nokkur störf til gamans sem eru beintengd og má beintengja við greinina. Við vitum að það eru fiskeldisfræðingar, líffræðingar, matvælafræðingar, eldisstjórar, gæðastjórar, sjómenn, skipstjórnarmenn, vélstjórar, dýralæknar, fiskvinnslufræðingar, bílstjórar, starfsmannastjórar — ég er með miklu lengri lista, ég ætla ekki að þreyta þingheim á að lesa hann — en fleiri og fleiri eru störfin, sölumenn, dreifingaraðilar og allt það, þannig að við sjáum að gríðarlega miklir hagsmunir eru undir.

Svo tölum við um að Vestfirðir hafa hlotið vottun, EarthCheck, sem stóriðjulaus landshluti og fer fiskeldi í sjó vel með þeirri áherslu að vera umhverfisvæn matvælaframleiðsla sem ekki krefst mikils rafmagns, ekki mikillar vatnsnýtingar né landsvæðis. Mig langar að nefna þetta.

Við í atvinnuveganefnd heimsóttum Vestfirði í fyrra og fengum að sjá hvernig verið er að rækta upp seiðin áður en þau eru sett út í kvíarnar. Það var ævintýri að fylgjast með því hvernig þessi kríli eru sett í agarskál áður en þau verða að einhverju sem sýnilega hreyfir sig, hvernig mannsandinn hefur í raun aldrei komið nálægt þessum seiðum, hvernig þau hafa farið á milli kerja, vaxið og dafnað smám saman þar til loksins kemur að því að þau eru tilbúin að fara út í kvíarnar. Þá eru þau algjörlega heilbrigð og mengunarlaus, engin lús og ekki neitt. Við vitum að lúsaváin kemur ekki fyrr en fiskarnir eru komnir í kvíarnar og mikill þéttleiki er í kvíunum og annað slíkt en þá fer lúsin að herja á fiskana. Ég veit að reynt hefur verið að nota hrognkelsi og ýmislegt annað til að draga úr lyfjanotkun og við höfum verið ótrúlega lánsöm hvað þetta varðar miðað við marga aðra. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að fylgjast vel með. Því finnst mér eitt í frumvarpinu ekki nógu afgerandi, þ.e. þegar ráðherra talar um að senda einhverja fulltrúa frá hinu opinbera einu sinni í mánuði til að taka út og fylgjast með því sem er að gerast í fiskræktuninni.

Eins og Færeyingar hafa það koma fulltrúar einu sinni í viku. Þeir athuga hvernig háttar til undir kvíunum, hvernig mengunin er og úrgangurinn frá ræktuninni undir kvíunum, hvort hún safnist of mikið fyrir og hvað eina. Verið er að mæla lúsina. Það er gert einu sinni í viku. Mér finnst við þurfa að gera þetta til að vera í meiri sátt við alla í landinu, líka þá sem eru á móti laxeldinu af sínum ástæðum, og til að koma til móts við alla. Til að það sé hafið yfir vafa finnst mér mjög nauðsynlegt að opinberir aðilar séu til staðar og geti fylgst betur með hvernig háttar til.

Annað er líka mjög mikilvægt og það eru þær reglur sem við höfum þó haft, að ekki eigi að setja ný seiði í kvíar sem slátrað hefur verið úr fyrr en kannski að 6–8 mánuðum liðnum. Þannig geta kvíarnar fengið að ræsta sig og hreinsa sig og allt þar undir. Við erum með ágætisstrauma hér þannig að góðir möguleikar eiga að vera til þess að við getum boðið upp á hreinar kvíar eftir 6–8 mánuði. Mér finnst afskaplega mikilvægt að þessir þættir séu skýrir. Þetta er nákvæmlega sá lærdómur sem við getum dregið beint af Færeyingum því að þeir hafa verið virkilega duglegir að fylgjast með þessu og vilja sýna það í verki að þeir eru virkilega í sátt og vilja vera í sátt við náttúruna og lofa henni að njóta vafans og eru einnig í sátt við þjóð sína. Í ljósi þess að við vitum að þessi atvinnugrein er komin til að vera eigum við að byggja hana upp í eins mikilli sátt og við mögulega getum. Hingað til höfum við ekki haft neinar athugasemdir. Færeyingar hafa ekki fengið neinar athugasemdir við ræktunina, heldur fengið þvert á móti alls konar staðlanir og vottanir sem viðurkenna að hlutirnir séu vel gerðir.

En þá kemur að þessum laxasleppingum. Hvernig stendur á því að við heyrum það ítrekað að hér sleppi lax? Hversu margir vitum við ekki. En nú vitum við það og væntanlega hefur hv. atvinnuveganefnd fengið að vita enn meira um það í Noregi að þeir eru með virkilega góðar forvarnir gagnvart þessum sleppingum. Ef til þess kemur að þeir missa fisk í sjóinn eru þeir með teljara inn í ár og annað slíkt til að geta séð og fylgst meira með, t.d. eru þeir með kafara sem fara reglulega í sjóinn til að fylgjast með. Hægt er að greina það í teljurum, sem eru myndavélar og annað slíkt, hvar um er að ræða eldislax og hvar ekki. Við getum komið þessu öllu upp hér. Við getum verið með gríðarlega öflugt forvarnakerfi og verið virkilega dugleg að sporna gegn því að hér muni verða einhver sú vá sem enginn kærir sig um að komi.

Í hjálögðu frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er áætlað að lögfesta áhættumat erfðablöndunar og er það vel. Þannig verður fyrst hægt að eyða óvissu og skapa heildstæðan lagaramma í kringum fiskeldið á Íslandi. Nauðsynlegt er þó að áhættumatið byggi á réttum og nauðsynlegum breytum til að hægt sé að draga upp á yfirborðið hina raunverulegu áhættu. Byggja þarf á raungögnum sem fyrirtækin eiga og munu koma til með að veita með lögfestingu þessa frumvarps, en miklar kröfur eru gerðar um aðgang að upplýsingum fyrirtækja. Þá þarf einnig að færa inn í líkan áhættumatsins þær miklu mótvægisaðgerðir sem fiskeldisfyrirtækin standa frammi fyrir, enda hagur allra, eins og áður segir, að fiskur nái ekki að sleppa. Samvinna fiskeldisfyrirtækja við stofnanir og stjórnvöld er því algjört grundvallaratriði. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég skil nú ekkert í þessu. Ég var að byrja og er rétt komin í gírinn en vil halda áfram með bjartsýni og bros, ekkert vesen. Við hljótum að geta unnið þetta faglega og vel með framtíðina að leiðarljósi.