149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skil alveg þá nálgun að svara þessu svona almennt. En ég vil sérstaklega þakka hv. þingmanni varðandi áhættumatið. Ég held einmitt að þeir þættir séu mikilvægir sem hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir kom inn á, að við eigum að skoða mótvægisaðgerðir. Við eigum að skoða ýmsa aðra þætti sem styrkt geta umgjörðina um áhættumatið.

Einnig hefur komið fram á fundum vísindamanna Hafrannsóknastofnunar á erlendri grundu að fylgst er af athygli með þróuninni hér. Við munum örugglega reka okkur á einhverja veggi, þ.e. Hafró — og við örugglega líka, en ég held að það sé mikilvægt, og við verðum að vera mjög einbeitt í því, að fylgja eftir þeirri leiðsögn sem við fáum þar.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann annarrar spurningar sem varðar það gjald sem fer í umhverfissjóð fiskeldis. Sæi hann fyrir sér að nefndin skoðaði sérstaklega að sjóðir yrðu útvíkkaðir og hefðu líka það hlutverk að fara í rannsóknir á villta laxinum? Ég tek undir með hv. þingmanni, við þurfum að fara í frekari rannsóknir á villtum laxi. Það er að hluta til — og það hefur alltaf verið ákveðin prósenta. En ég veit það alveg frá fyrri tíð að það hefur líka skapast togstreita þegar umsækjendur hafa verið of margir og umsóknir hafa tengst of mikið villta laxinum okkar.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér ákveðnar breytingar á hlutverki sjóðsins.