149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[18:31]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég hlakka mikið til starfs nefndarinnar á næstu vikum og jafnvel mánuðum sem tengist þessu mikilvæga máli.

Það er hárrétt og ég tek undir með hv. þingmanni að rannsóknir á laxastofnum eru geipilega mikilvægar. Mig grunar að það verði mikil áhersla á rannsóknir á næstu árum sem tengjast fiskeldi á Íslandi og framvindu þess, að menn fari í miklar og ítarlegar rannsóknir sem snúa að fiskeldinu og síðan hinum náttúrulegu stofnum, bæði í ánum og í hafinu. Það kemur í ljós að vísindaleg þekking á hafinu sérstaklega virðist vera mjög takmörkuð. Það er eitt af verkefnunum, að reyna að ná ítarlegri og betri þekkingu á laxastofnum þannig að við getum lært enn betur á þau ferli.

Það er rétt að það kom fram í ferðinni að sérstaklega á allra síðustu árum hefur gríðarlega mikil þekking færst úr olíuiðnaðinum, eftir að olíuverð fór að lækka. Tæknigeirinn færði sig úr olíuiðnaðinum töluvert mikið inn í fiskeldið. Það kom fram í frétt að 30.000 tæknifræðingar og verkfræðingar misstu vinnuna á vesturströnd Noregs, tengt lækkun olíuverðs, og hafa þeir m.a. yfirfært sína þekkingu yfir í fiskeldismálin.

Eins og ég kom að í ræðu minni áðan hafa komið fram gríðarlegar tækninýjungar. Maður hafði ekki mikla hugmynd um það áður en farið var í ferðina hversu mikil sú vinna hefur verið en líka hversu mikið slysasleppingum hefur fækkað. Það kom t.d. fram í máli þeirra vísindamanna sem við ræddum við úti.

Ég sé að tíminn er að verða búinn en við eigum líka tæknifyrirtæki á þessu sviði sem við munum auðvitað leita (Forseti hringir.) til á næstu árum í þessari vinnu.