149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:25]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við stöndum frammi fyrir erfiðu og alvarlegu verkefni og brýnt er að til þess sé gengið fumlaust og af festu. Einn af hornsteinum réttarríkisins sjálfs er undir. Aðild okkar að mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstólnum er okkur mikilvæg. Aðildin hefur fært okkur miklar réttarbætur og tímabærar á mörgum sviðum, réttarbætur sem hvorki Alþingi, framkvæmdarvald né innlendir dómstólar hafa fært okkur af sjálfsdáðum eða að eigin frumkvæði. Það er skylda okkar alþingismanna, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að nálgast verkefnið af auðmýkt og virðingu fyrir sjálfum okkur.

Herra forseti. Úrlausn þessa verkefnis er ekki einkamál ríkisstjórnarinnar. Pólitískir hagsmunir eða sært stolt einstakra ráðherra sem og hagsmunir stjórnar eða stjórnarandstöðu eiga og mega ekki ráða för. Allur ferill þessa máls frá upphafi til þessa dags sýnir okkur að ekki var rétt staðið að verki þegar nýju mikilvægu dómstigi var komið á fót. Allir sem að því ferli komu verða að læra sína lexíu, þar með talinn sá sem hér stendur.

Vegna þess hvernig málið er vaxið voru fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar vonbrigði. Það voru vonbrigði að fyrrverandi dómsmálaráðherra hrökklaðist úr embætti með þau orð á vörunum að hún væri ekki sammála niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og gaf strax út þá skoðun sína til nýs hæstv. dómsmálaráðherra að auðvitað ætti að sækja um að skjóta málinu til meðferðar yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. Í sama streng tóku strax aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni, þar með talinn hæstv. forsætisráðherra. Sýnu alvarlegast var þó að heyra þau sjónarmið að Mannréttindadómstóllinn væri kominn út fyrir valdsvið sitt og inn á brautir sem krefðust þess að Ísland tæki til skoðunar hvort mark ætti að taka á dómum hans og hvort þeir hefðu yfirleitt einhver áhrif hér á landi. Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar bera því miður ekki vott um yfirvegun. En sem betur fer kvað við nokkuð nýjan tón í máli hæstv. forsætisráðherra og nýs hæstv. dómsmálaráðherra.

Herra forseti. Stundum er best að horfast í augu við orðinn hlut, hafa vit til að játa sig sigraðan en berja ekki höfðinu við steininn í von um að steinninn brotni á endanum en ekki höfuðið. Sá sem hér stendur er ekki með á takteinum hvaða leiðir er best að fara. Hitt veit ég samt að þegar verkefni af þessu tagi er til úrlausnar verður að vanda sig. Það þarf að byrja á því að greina hver vandinn er. Það þarf að ákveða hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að lausn finnist. Í þessu tilviki starfhæfur Landsréttur, þar sem skipan allra dómara uppfyllir ströngustu skilyrði og getur þannig notið trausts fram á veginn. Það þarf að greina hvaða áfangar geta verið á þeirri leið að koma hlutum í rétt horf, hvað er hægt að gera til skamms tíma og hvað til lengri tíma. Það þarf að stilla upp öllum valkostum og greina þá vandlega og gera áhættumat fyrir hvern og einn þeirra og hvort þeir séu framlag til farsællar lausnar. Einungis með vinnubrögðum af þessu tagi næst góður árangur sem sátt verður um og kemur í veg fyrir óvissu og að réttaröryggi sé í uppnámi. Til þessa verks eigum við að kalla okkar færustu sérfræðinga og spara okkur stórar yfirlýsingar um hvað sé best að gera þar til þeir hafa haft ráðrúm til þess að yfirfara stöðuna og leggja fram sínar tillögur og hugmyndir.

Herra forseti. Nú reynir á ríkisstjórnina. Hún þarf að nálgast þetta verkefni með auðmýkt og virðingu og verður að taka höndum saman við Alþingi til að greiða úr málinu og þá reynir auðvitað á Alþingi að vinna með ríkisstjórninni að farsælli lausn málsins. Sem betur fer gefur skýrsla hæstv. forsætisráðherra fyrirheit um að þessi braut verði fetuð.

Herra forseti. Það sem ekki má gerast í þeirri vinnu sem er fram undan er að á málinu verði tekið sem einhvers konar baráttu fyrir fullveldi Íslands og sjálfstæðisbaráttu gegn erlendri íhlutun. Fari málið í þann farveg er hætta á ferðum. Við skulum ekki gleyma því að við erum aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstóli Evrópu. Það erum við ekki síst til þess að unnt sé að verja réttindi íslenskra borgara fyrir mistökum og rangindum íslenskra stjórnvalda. Það eru hagsmunirnir sem við eigum að verja og tryggja með öllum ráðum. Við skulum ekki gleyma þessu grundvallaratriði við meðferð þessa máls.