149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2019 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

658. mál
[17:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2019, um breytingu á IX. viðauka, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/751, er varðar milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur.

Með reglugerð nr. 2015/751 er kveðið á um hámark á milligjöld sem færsluhirðar greiða kortaútgefendum vegna notkunar neytendagreiðslukorta, þ.e. 0,2% af fjárhæð greiðslu vegna debetkorta og 0,3% vegna kreditkorta.

Auk þess er í reglugerðinni kveðið á um bann við svæðisbundnum takmörkunum í leyfissamningum eða í reglum um greiðslukortakerfi og mælt fyrir um aðskilnað greiðslukortakerfa og vinnsluaðila. Einnig eru aukin úrræði korthafa og söluaðila til að ákveða greiðslumáta, sundurliðun þjónustugjalda færsluhirða og upplýsingagjöf færsluhirða til söluaðila.

Reglugerðinni er ætlað að lækka kostnað söluaðila og neytenda, bæta samkeppni og stuðla að samþættingu greiðslukortamarkaða þvert á landamæri innan Evrópu. Innleiðing reglugerðar nr. 2015/751 kallar á lagabreytingar hér á landi og mælti fjármála- og efnahagsráðherra nýverið fyrir frumvarpi til laga um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur til innleiðingar á gerðinni.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni umræðu verði tillögu þessari vísað til hæstv. utanríkismálanefndar.