149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í andsvörum eftir ræðu hans hvort það væri eitthvað sem hann gæti gert strax. Hann segir að hann ætli núna að setja á stofn 21 manns starfshóp, sem er stór hópur. Eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson benti á tekur oft langan tíma fyrir stóran hóp að koma sér saman og vinna að málum. Ráðherra ætlast til að það klárist í haust. Þá erum við að tala um kannski sex mánuði áður en farið verður að grípa til einhverra aðgerða. Ráðherra sagði að það væri eitt sem hann gæti gert, að ráðuneytið sjálft færi að hafa meira eftirlit með Fiskistofu.

Ríkisendurskoðun, sem er eftirlitsstofnun Alþingis, er búin að fara yfir þetta. Hún á samkvæmt lögum á að meta skilvirkni og árangur stofnana, á að meta hvort fé sem stofnun fær nýtist á sem skilvirkastan og hagkvæmastan hátt og skili þeim árangri sem lög segja. Það er tilgangurinn. Það er tilgangurinn með skýrslunni sem við erum að ræða hér og að koma með tillögur til úrbóta. Og hérna eru tillögur til úrbóta. Ráðherra virðist ekki ætla að fara í neitt af þeim nema eitt atriði, að styrkja eftirlitið með framkvæmd 13. og 14. gr. laga um stjórn fiskveiða, þannig að ráðuneytið sjálft hafi eftirlit með þessari stofnun, Fiskistofu. Það er bara alls ekki nógu gott. Eða hvað? Er það nógu gott?

Lesum þá tillögur til úrbóta frá eftirlitsstofnun Alþingis, Ríkisendurskoðun, svo að ekki sé verið að fara með fiskveiðiauðlindina okkar á ósjálfbæran hátt næstu sex mánuði þangað til ráðherra er tilbúinn með sinn starfshóp. Þingið er búið að fá Ríkisendurskoðun, faglega stofnun, til að meta hvað sé hægt að gera strax og hún leggur fram tillögur til úrbóta. Sú fyrsta er um eftirlit með framkvæmd laga, með leyfi forseta:

„Styrkja þarf eftirlit með framkvæmd laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.“

Þarna þarf að styrkja eftirlit. Jú, ráðherra sagðist ætla að styrkja eftirlit með Fiskistofu þegar kemur að ráðuneytinu. Í öðrum punkti tillögunnar segir:

„Tryggja þarf nauðsynleg úrræði og aðföng svo unnt sé að sinna eftirliti með markvissum og árangursríkum hætti.“

Nú er það alveg ljóst að Fiskistofa er undirfjármögnuð. Hún getur ekki sinnt sínu lögbundna hlutverki. Það hlýtur þá að vera að lágmarki hægt að gera það núna að tryggja, eins og segir hér, „aðföng sem nauðsynleg eru“ — í þessu tilfelli fjármagn, þannig að Fiskistofa geti ráðið í stöðugildi, ráðið nokkra starfsmenn til að fara að sinna þeim verkefnum sem hún á lögum samkvæmt að sinna í dag en getur ekki gert. Það eru pottar inni í fjármálaráðuneytinu til að grípa til í nákvæmlega slíkum tilfellum. Þegar það koma svona skýrar upplýsingar um hvað verði að gera til að uppfylla lög á ráðherra að nota þessa potta til að framfylgja lögum. Annars er hann ekki að sinna sínu hlutverki. Hann er framkvæmdarvaldið. Hann á að framfylgja lögunum.

Önnur tillaga til úrbóta í skýrslu Ríkisendurskoðunar er um eftirlit með vigtun, þar eru fjórir punktar. Byrjum á fyrsta, með leyfi forseta:

„Setja þarf fram skýrar kröfur um aðstöðu til vigtunar sjávarafla í löndunarhöfnum og eftirlit hafnaryfirvalda með vigtun svo bæta megi eftirlit með nýtingu auðlindarinnar. Kanna þarf hvort færa eigi vigtun á hafnarvog undir forræði Fiskistofu.“

Part af þessu hlýtur að vera hægt að gera strax. Að kanna hvort þetta eigi að fara undir forræði Fiskistofu tekur kannski einhvern tíma en það þarf ekki að setja það allt saman inn í þennan risastóra hóp, eða hvað? Það er klárlega hægt að gera skýrar kröfur um aðstöðu til vigtunar sjávarafla og löndunar. Mögulega er hægt að gera eitthvað af þessu strax.

Punktur tvö um eftirlit með vigtun, með leyfi forseta:

„Fylgja þarf eftir samstarfsyfirlýsingu Fiskistofu við Hafnasamband Íslands svo efla megi eftirlit með vigtun á hafnarvog. Mikilvægt er að unnið verði áfram að þeim nauðsynlegu úrbótum sem nefndar eru í yfirlýsingunni svo fækka megi þeim áhættuþáttum sem eru til staðar við vigtun á hafnarvog.“

Þetta er klárlega hægt að gera strax. Það er til nokkuð sem heitir samstarfsyfirlýsing Fiskistofu við Hafnasambandi Íslands svo efla megi eftirlit með vigtun á hafnarvog. Þessi samstarfsyfirlýsing er til og það er hægt að fara strax í að krefjast þess að henni sé framfylgt. Framkvæmdarvaldið á að gera það.

Punktur þrjú um eftirlit með vigtun:

„Forsendur og fyrirkomulag endurvigtunar þarf að endurskoða frá grunni svo bæta megi eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Tryggja þarf að hægt verði að sinna skilvirku og árangursríku eftirliti með heimavigtun.“

Þetta þarf að endurskoða frá grunni. Þetta er nokkuð sem á heima í starfshópi ráðherrans sem myndi skila af sér í haust.

Fjórði punkturinn í tillögu nr. 2, um eftirlit með vigtun, með leyfi forseta:

„Fjölga þarf yfirstöðum eftirlitsmanna hjá vigtunarleyfishöfum. Nýta þarf til hins ýtrasta heimild Fiskistofu til að fylgjast með allri vigtun leyfishafa í allt að sex vikur, komi í ljós að veruleg frávik séu í íshlutfalli.“

Þetta er hægt að gera strax, fjölga yfirstöðum eftirlitsmanna hjá vigtunarleyfishöfum.

Tillaga til úrbóta nr. 3 í skýrslu Ríkisendurskoðunar er um eftirlit með brottkasti og þar eru tveir punktar. Byrjum á þeim fyrri, með leyfi forseta:

„Kanna þarf hvort og þá hvernig hægt er að auka samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslu Íslands við eftirlit með brottkasti.“

Þetta er nokkuð sem tæki lengri tíma og er hægt að setja inn í starfshóp ráðherra sem skilar af sér í haust.

Síðari punkturinn varðandi eftirlit með brottkasti:

„Auka þarf viðveru eftirlitsmanna um borð í fiskiskipum en einnig horfa til tækninýjunga við eftirlit sem gætu sparað bæði tíma og fjármagn.“

Þetta er hægt að gera strax, fyrri hlutann um að fjölga eftirlitsmönnum þannig að það sé meiri viðvera eftirlitsmanna um borð. Það ætti að gera strax. Tækninýjungarnar til framtíðar eru atriði sem má bíða og fara inn í starfshóp ráðherra og við fáum þá eitthvað út úr því í haust. En hitt er hægt að gera strax.

Tillaga til úrbóta nr. 4 frá Ríkisendurskoðun, þannig að ekki sé verið að fara illa með sjávarauðlindina okkar og við fylgjum lögum um sjálfbærni og sinnum eftirliti með því að það sé farið vel með sjávarauðlind okkar, er um eftirlit með samþjöppun aflaheimilda. Þar eru þrír punktar. Byrjum á þeim fyrsta, með leyfi forseta:

„Endurskoða þarf ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. svo þau þjóni tilgangi sínum. Tryggja verður að ákvæði um hvenær tveir eða fleiri aðilar skuli teljast tengdir við framkvæmd þeirra séu skýr.“

Það þarf að endurskoða þessi ákvæði. Það tekur tíma. Það getur farið inn í starfshóp ráðherra.

Punktur tvö af þremur um eftirlit með samþjöppun aflaheimilda:

„Meta þarf yfirráð tengdra aðila yfir aflaheimildum með reglubundnum og markvissum hætti út frá ákvæðum 13. gr. laga um stjórn fiskveiða.“

Þetta er hægt að gera strax. Þetta er bara gagnasöfnun, að gögnin séu tekin saman um yfirráð tengdra aðila yfir aflaheimildum. Það þarf bara að meta hverjir hafi yfirráð yfir þessu. Það er strax hægt að setja einhvern í það verkefni og væri mjög þarft að gera.

Þriðji og síðasti punkturinn í tillögu um eftirlit með samþjöppun aflaheimilda, með leyfi forseta:

„Endurskoða þarf hvernig staðið er að eftirliti með eignarhaldi útgerðarfyrirtækja og tengslum milli aðila í sjávarútvegi. Koma þarf upp markvissu eftirliti með eignarhaldi útgerðarfélaga svo að Fiskistofa búi á hverjum tíma yfir nýjustu upplýsingum um bein og óbein tengsl milli aðila í sjávarútvegi.“

Þetta er eignatengslaskýrsla. Ég vann einu sinni að slíku verkefni hjá Samkeppnisstofnun sem þá hét, það var stjórnar- og eignatengslaskýrsla sem stofnunin gerði varðandi aðallega matvörumarkaði, held ég, það var kannski víðtækara, ég man það ekki í svipinn. Það eru orðin 15, 16, 17 ár síðan ég gerði þetta. Það þarf að skipa einhvern í þetta verkefni og það er unnið. Þetta er hægt að gera strax. En ráðherra virðist ætla að bíða í sex mánuði áður en hann fer af stað með það að hafa eftirlit og safna upplýsingum og gögnum og hafa eftirlit á grundvelli samstarfsyfirlýsingar og laga og auka fjármagn. Það kemur klárlega fram í skýrslunni að það vantar fjármagn til að framfylgja lögum. Ráðherra ætlar ekki að framfylgja lögum strax eins og Ríkisendurskoðun leggur til, hann ætlar að bíða í sex mánuði. Það finnst mér ekki í lagi.

Ég ætla að skoða hvað það er sem við í þinginu þurfum að gera til þess að ráðherra sinni sínum skyldum sem framkvæmdarvald í þessu landi.