149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Ég tek undir það að vissulega eiga þessar spurningar alls ekki að tefja framgang málsins.

Við erum að tala um næstu skref og mér finnst vissulega mikilvægt að við skoðum afglæpavæðingu neysluskammta. En mig langar kannski líka að vísa í eitt sem mér finnst mjög mikilvægt næsta skref og það snertir annan hóp sem er gríðarlega viðkvæmur. Það eru fangar sem nota vímuefni. Mér hefur fundist af því sem ég hef lesið mér til um aðstæður fanga og kynnt mér að skaðaminnkun fyrir fanga sé mjög takmörkuð á Íslandi. Samkvæmt öllum þeim samtökum sem láta sig þessi málefni varða eru fangar langviðkvæmasti hópurinn og er í langmestri hættu á að verða veikur vegna neyslu og er líklegri til að vera í neyslu en aðrir hópar úti í þjóðfélaginu.

Skaðaminnkun í fangelsi finnst mér vera mjög mikilvægt næsta skref til að taka. Fangelsismálayfirvöld hafa oft ýjað að því að öryggi hamli því að það séu t.d. sprautunálaprógrömm og svoleiðis og líka að með því að fara í skaðaminnkandi aðgerðir í fangelsum séum við að viðurkenna að þau eigi við vandamál að stríða, sem ég held að hljóti að verði bara að gerast. Afneitun dugar ekki endalaust, að afneita vanda sem vissulega er til staðar. Og vegna þess að við vorum að tala um næstu skref langaði mig að halda þessu til haga.

Þetta mál er vissulega gríðarlegt framfaraskref og ég held að það sé mjög mikilvægt hvernig við nálgumst þetta með neysluskammtana, sem myndi þá leysa annað vandamál, það hvernig lögregla kemur fram við fólk sem er á leiðinni til eða frá neyslurýmum.

Hvað varðar ungt fólk vildi ég bara koma því að að á tónlistarhátíðum og öðrum stöðum þar sem vitað er til þess ungt fólk sé mögulega að fara að nota einhver vímuefni, hafa félagasamtök í öðrum löndum verið með tjöld þar sem fólk getur prófað vímuefnin sín og þetta hefur aukið öryggi þessara barna aðallega. (Forseti hringir.) Í þeim ramma þarf líka að vera til skoðunar hvort lögreglan muni veitast að þessum börnum og reyna að taka af þeim neysluskammtana eða hvað það nú er.