149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

taka gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður.

710. mál
[14:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1134, 710. mál. Um er að ræða frumvarp til laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð sem lagt er til að komi til framkvæmdar með álagningu gjalds á fisk sem slátrað er frá og með 1. janúar 2020.

Með frumvarpi þessu er mælt fyrir um töku gjalds vegna nýtingar eldissvæða í sjó og stofnsetningu fiskeldissjóðs til að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á viðkomandi svæðum.

Frumvarp þetta byggir á stefnu ríkisstjórnarinnar sem sett er fram í sáttmála hennar frá 30. nóvember árið 2017 en þar segir, með leyfi forseta:

„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið. Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.“

Má með réttu segja að þetta frumvarp, ásamt því frumvarpi sem ég mælti fyrir fyrr í þessum mánuði, um breytingu á ýmsum lögum um fiskeldi, sé svar við þeirri áskorun í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur þar sem kallað er eftir umræðu og tillögum um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku í fiskeldi í sjó ásamt því að þessi atvinnugrein skuli byggð upp á grunni vísindalegrar ráðgjafar. Jafnframt er með frumvarpinu verið að bregðast við tillögum sem finna má í skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skilað var til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ágúst 2017. Í hópnum áttu sæti sjö fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Matís, Landssambandi fiskeldisfyrirtækja og Landssambandi veiðifélaga. Meðal tillagna hópsins var að tekið yrði upp framleiðslubundið leyfisgjald fyrir eldi í sjó og gerðar tillögur um fjárhæð þess. Að auki var lögð til aðlögun að fullri gjaldtöku og að hvatar yrðu til eldis á ófrjóum laxi og notkun svonefndra lokaðra kvía. Lagt var til að gjaldstofninn myndi miðast við framleiðsluheimildir en ekki framleitt magn.

Virðulegi forseti. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu er rakið að aðeins fáir staðir í heiminum bjóða upp á vistfræðilegar aðstæður til umfangsmikillar og arðbærrar eldisframleiðslu í sjókvíum á Atlantshafslaxi. Auk Noregs og Færeyja eru það helst Chile, Skotland og Kanada. Við Ísland hefur slík framleiðsla ekki náð sér verulega á strik fyrr en á allra síðustu árum. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Hagstofu Íslands fyrir útflutning ársins 2018 nam útflutningur á afurðum eldislax um 9 milljörðum kr. Þetta er því ekki veruleg efnahagsstærð enn sem komið er en til samanburðar má nefna að útflutningur annarra sjávarafurða nam á árinu 2018 um 240 milljörðum kr.

Um aðstæður fiskeldis er fjallað í því frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fiskeldi sem ég gat um áðan og er til meðferðar á þingi samhliða þessu frumvarpi. Þar kemur fram að fiskeldi er atvinnugrein í örri uppbyggingu. Sjö rekstraraðilar starfrækja eldi á laxi og regnbogasilungi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Í september árið 2018 voru útgefin rekstrarleyfi fyrir framleiðslu á laxi fyrir samtals 45.200 tonn á ársgrundvelli og 2.850 tonn af regnbogasilungi. Þetta er atvinnugrein sem hefur eflst verulega á síðustu árum en árið 2009 nam framleiðsla á laxi í sjókvíum við Ísland einungis rúmum 700 tonnum. Jafnframt má vísa til umfjöllunar á bls. 9 í greinargerð með frumvarpinu en þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá eldisfyrirtækjunum er ráðgert að framleiðsla á eldislaxi árið 2022 verði um 52.000 tonn sem er umtalsverð aukning frá því sem nú er.

Íslensk náttúra er gjöful til lands og sjávar og býður mönnum oftlega gnótt tækifæra. Fiskeldi sem atvinnugrein á því mikil tækifæri til vaxtar hér á landi. Við höfum séð hvaða margfeldis- og vaxtaráhrif fiskeldi hefur haft í Noregi og norskum byggðum. Norðmenn eru stoltir af sínum sjávarútvegi líkt og við Íslendingar en þó er svo komið að fiskveiðar standa undir einungis tæpum 30% af verðmætisútflutningi sjávarfangs frá Noregi en eldisfiskurinn stendur undir rúmlega 70%. Vonir okkar standa til þess að laxeldi muni aukast verulega á næstu árum þótt naumast muni sá tími koma í bráðinni að fiskeldi vaxi fiskveiðum okkar Íslendinga yfir höfuð. Hvort svo verði er ekki auðvelt að spá en e.t.v. leyfist mér að hugsa svo — og kemur þá í hugann hin bráðsnjalla og þekkta staka Jóns Ólafssonar Indíafara sem var ævintýramaður mikill. Hann orti svo:

Hér er nóg um björg og brauð,

berirðu töfrasprotann.

Þetta land á ærinn auð,

ef menn kunna að nota hann.

Það má hugleiða þetta í samhengi þessa frumvarps. Við sem berum ábyrgð á löggjöf og stjórnsýslu í landinu verðum að hlúa á tilhlýðilegan hátt að atvinnuvegunum. Í því getur falist, auk þess að tryggja sjálfbærni framleiðsluhátta, að þess sé gætt að ytra umhverfi, eins og sérstök gjaldtaka af starfseminni, verði ekki um skör fram. Þá er ekki síður mikilvægt, við nýtingu okkar náttúrulegu gæða lands og sjávar, að sjálfbær nýting auðlinda verði höfð að meginmarkmiði.

Það er rakið í greinargerð með frumvarpinu almennum orðum að aukin gjaldtaka eða skattheimta getur dregið úr samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja á mörkuðum. Að auki getur hún dregið úr vilja til fjárfestinga og uppbyggingar sem getur komið niður á fjárfestingum sem annars yrði ráðist í og gætu reynst fjárhagslega ábatasamar. Þess ber einnig að geta að laxeldisfyrirtæki greiða auk þess þegar skatta með venjulegum hætti sem hlutafélög. Því verður að gæta þess að gjaldtaka sé hófleg, en ólíkt t.d. tekjuskatti leggst gjald samkvæmt frumvarpi þessu á fyrirtæki án tillits til þess hvort rekstur þeirra skilar hagnaði. Þá leggst fyrirhuguð gjaldtaka einkum á fyrirtæki sem starfa á landsbyggðinni. Ef gjaldið kæmi ekki til er auk þess mögulegt að viðkomandi fjármunir yrðu notaðir til fjárfestinga eða aukins rekstrar í nærumhverfi. Af því leiða með öðru sjónarmið til þess að sveitarfélögum verði tryggð hlutdeild í þeim tekjum sem frumvarpið mun bera með sér.

Við undirbúning frumvarpsins höfum við að sjálfsögðu farið vandlega yfir framangreind sjónarmið. Meginforsenda þess er að gjald samkvæmt því grundvallast á þeirri aðstöðu að handhafar rekstrarleyfa til sjókvíaeldis njóta takmarkaðra réttinda til hagnýtingar sameiginlegra auðlinda úr hendi stjórnvalda. Með því er einnig horft til þess að viðurkenna, með líkum hætti og ef um væri að ræða rekstur á landi í einkaeign eða opinberri eigu, að öflun starfsaðstöðu sé hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækja sem eðlilegt er að sanngjarnt gjald komi fyrir en ekkert gjald hefur fram að þessu verið tekið vegna handhafnar rekstrarleyfa í fiskeldi. Þá er loks horft til þess að tekjur sem falla munu til samkvæmt frumvarpinu geti staðið á móti nauðsynlegum rannsóknum í þágu fiskeldis, kostnaði við styrkingu stjórnsýslu og til eflingar byggða þar sem áhrifa fiskeldisstarfseminnar gætir. Þannig má nefna að ráðuneytið hyggst setja fjármagn í að rannsaka villta laxastofninn í hafinu, m.a. lífsferil hans, ógnir í náttúrunni og sérkenni.

Virðulegi forseti. Ég mun nú víkja að meginefni frumvarpsins. Með því er lagt til að leyfishafar gildandi rekstrarleyfa í sjókvíaeldi sem ala lax og regnbogasilung greiði gjald vegna nýtingar á eldissvæðum sem miðist við framleiðslumagn. Annað fiskeldi er undanskilið gjaldinu þar sem það er ýmist á tilraunastigi eða það smátt í sniðum að ekki þykir rétt að mæla fyrir um gjaldtöku.

Við kynningu frumvarpsins í samráðsgátt Stjórnarráðsins kom fram margþætt gagnrýni um að miðað yrði við heimildir til framleiðslu í leyfum. Það varð til þess að ákveðið var að taka fremur upp framleiðslumiðaða gjaldtöku. Við undirbúning frumvarpsins var því einkum horft til reynslu Færeyinga af sambærilegu fyrirkomulagi. Í greinargerð með frumvarpinu er sagt frá löggjöf um gjaldtöku í Færeyjum. Það frumvarp sem við höfum hér til umfjöllunar er að efni til mjög áþekkt færeysku lögunum sama efnis. Lagt er til að gjald verði ákveðið á hvert framleitt kílógramm af eldisfiski sem hlutfall af heimsmarkaðsverði hverju sinni og nemi 3,5% af stofni þegar verð er 4,8 evrur á kíló eða hærra, 2% af stofninum þegar verðið er 4,3–4,8 evrur og fari niður í 0,5% þegar verðið er lægra en það. Sá greinarmunur er miðað við færeysku lögin að hlutfallsálagningin er umtalsvert hærri, þ.e. 5% í stað 3,5% í efsta þrepi og 2,5% í stað 2% samkvæmt frumvarpi þessu. Neðsta þrepið, 0,5%, er það sama.

Ljósar ástæður eru fyrir því að lagt er til að gjaldhlutfall verði lægra með frumvarpinu en í færeysku lögunum. Færeyskum eldisfyrirtækjum hefur gengið óvenjuvel í rekstri á undanförnum árum en auk þess hefur þýðingu að tekjuskattur er lægri í Færeyjum en hér á landi. Þá greiða íslensk eldisfyrirtæki þegar gjald til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, auk þess að hafnargjöld eru hér á landi lögð á samkvæmt verðmætisreikningi sem mun ekki vera raunin í Færeyjum.

Við vitum að íslenskt fiskeldi sem atvinnugrein er komið mun skemmra á veg en fiskeldi í Færeyjum og aðstæður kunna að vera um sumt aðrar. Því er ótvírætt að ekki verður borin saman rekstrarafkoma íslenskra og færeyskra fiskeldisfyrirtækja svo sem nú standa sakir. Það er ástæðan fyrir því að lagt er til að sjö ára aðlögun verði að fullu gjaldi, svo sem mælt er fyrir um í ákvæði I til bráðabirgða við frumvarpið. Jafnframt er ljóst að komi til þess að uppbygging fiskeldis verði ekki slík sem að er stefnt ákveðnum skrefum af fiskeldisfyrirtækjunum getur það kallað á endurskoðun gjaldtökunnar samkvæmt frumvarpi þessu.

Lagt er til með frumvarpinu að gjald á regnbogasilung verði helmingur af gjaldi á laxi enda rekstrarforsendur ekki þær sömu. Hið sama verði látið gilda um eldi með lokuðum eldisbúnaði sem og eldi á ófrjóum laxi þar sem forsendur eru einnig aðrar. Auk þess er lagt til að ekkert gjald verði tekið af framleiðslu á ófrjóum laxi eða eldi í lokuðum eldisbúnaði fyrr en 1. janúar 2026 til að hvetja til þeirrar framleiðslu sem undir þetta hvort tveggja heyrir. Lagt er til að gjaldið verði ákveðið af Fiskistofu í desember á hverju ári til að öðlast gildi fyrir komandi almanaksár.

Um tekjuáhrif frumvarpsins fyrir ríkissjóð er fjallað í kafla 6.2 í almennum athugasemdum með frumvarpinu og vísast nánar til þess sem þar segir.

Virðulegi forseti. Ég vil því næst víkja að ákvæðum 7. gr. frumvarpsins um stofnsetningu sérstaks Fiskeldissjóðs. Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar segir, með leyfi forseta:

„Fiskeldissjóður er sjálfstæður opinber sjóður sem hefur það hlutverk að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.“

Í frumvarpsgreininni kemur fram að sjóðurinn nýtur sjálfstæðis í störfum sínum en lagt er til hann auglýsi opinberlega eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki úr sjóðnum til verkefna.

Að baki þessari áherslu um styrkingu innviða og samfélagslegrar þjónustu á tilteknum landsvæðum hvíla rök sem m.a. voru tíunduð í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga í samráðsgátt Stjórnarráðsins um fyrri útgáfu þessa frumvarps. Þar var bent á að með frumvarpinu sé lagt á gjald sem renni í ríkissjóð og sveitarfélögin sitji eftir með umhverfiskostnaðinn og þá áhættu sem fylgir uppbyggingu innviða á þeim svæðum þar sem sjókvíaeldi er stundað, t.d. samfélagslega þjónustu og samgöngur, þar með talin hafnarmannvirki.

Ég held að samstaða sé um það í þjóðfélaginu að eðlilegt sé að þau sveitarfélög sem búa við þá vaxtarverki sem fylgja uppbyggingu fiskeldis sem atvinnugreinar njóti stuðnings hins opinbera með þessum hætti. Sveitarfélögin eru vel að því komin og ég er ekki í vafa um að ráðstöfunarfé Fiskeldissjóðs, sem lagt er til með frumvarpinu að verði hlutdeild í tekjum af gjaldtöku í fiskeldi, verði vel varið. Í greinargerð með frumvarpinu er gefið yfirlit um væntar tekjur sjóðsins á næstu árum en ráðgert er að hann njóti fyrst framlaga árið 2021, sem gefur þeirri stjórn sem yfir hann verður sett og skipuð rúman möguleika til að undirbúa starfrækslu hans.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess. Að lokinni þeirri umræðu sem hér stendur legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.