149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[15:52]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er laukrétt að við þurfum alltaf að vera á varðbergi í þessum málum og mikilvægt að þau séu tekin með reglulegum hætti til pólitískrar umræðu, ekki bara til að skerpa á ríkisstjórninni og ráðherrunum heldur líka til að þessi umræða heyrist reglulega, að stjórnmálin í landinu láti sig þessi mál varða, hvar í flokki sem menn standa.

Það er rétt að koma því að í upphafi, varðandi almennt eftirlit á vinnumarkaði, að ríkisvaldið, eða stofnanir á vegum ríkisins, fer einungis með eftirlit með mjög litlum hluta vinnumarkaðarins, sem eru útsendir starfsmenn og starfsmannaleigur, eða um 0,9%. Það hefur verið talsvert mikil umræða um starfsmannaleigur. Það má líka geta þess að það er margt sem bendir til þess að á þessu ári sé útsendum starfsmönnum að fækka mjög mikið hér á landi. Á árinu 2018 voru starfandi útsendir starfsmenn í heildina 1.107 á vegum 115 erlendra þjónustufyrirtækja, en í febrúar 2019 voru starfandi hér á landi 79 erlendir starfsmenn á vegum 13 erlendra þjónustufyrirtækja. Það virðist því vera að þeim sé að fækka.

Þingmaðurinn spyr: Til hvaða aðgerða getur ríkisvaldið gripið í þessum málum? Eru hlutirnir í lagi? Ég skipaði síðasta haust starfshóp sem fór sérstaklega yfir þessi mál og hann hefði ekki verið skipaður nema af því að við töldum að það þyrfti að skerpa á þessum málum í heild sinni. Hópurinn skilaði niðurstöðum í janúar sl. og kom með fjölmargar tillögur sem við höfum þegar sett í farveg, til að mynda um kennitöluflakk, sem var ein af stærstu tillögum hópsins. Þar hefur atvinnuvegaráðuneytið og hæstv. ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þegar kynnt frumvarp sem nú er komið í samráðsgátt.

Önnur tillaga var sú að útfært yrði hvernig mætti fyrirbyggja alvarleg og/eða ítrekuð brot gegn starfsmönnum með því að útvíkka refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna. Félagsmálaráðuneytið er núna í samstarfi við Vinnueftirlit ríkisins að vinna að breytingum hvað þennan lið varðar og við vonumst til þess að geta kynnt það sem fyrst.

Þriðja tillagan er m.a. að stjórnvöldum verði veittar lagaheimildir til að taka á brotastarfsemi með þvingunarúrræðum og með stjórnvaldsviðurlögum. Þarna erum við m.a. að vinna að tillögum til að fylgja eftir þessari skýrslu og gerum það í samstarfi við Vinnueftirlit ríkisins.

Í skýrslunni er líka fjallað um að það skuli setja skyldu um keðjuábyrgð í lög um opinber innkaup. Það er breyting sem væri hæglega hægt að koma inn í meðförum þingsins. Þingið hefur þegar til umfjöllunar frumvarp þar sem þessi mál eru opin og væri mögulegt að fylgja því þar á eftir.

Síðan er ein tillaga um að komið verði í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi og markaður skýr rammi um hvað skuli heimila undir þeim formerkjum. Þar hefur ráðuneytið, frá því að þessari skýrslu var skilað, verið í samstarfi við Vinnumálastofnun að forma slíka tillögu sem við vonumst til að geta kynnt sem fyrst.

Jafnframt er ágætt að segja frá því að ein af tillögum þessa hóps var að það yrði búið til víðtækt skipulagt samráð og samstarf á milli stofnana í eftirlitsgeiranum og ekki bara innan félagsmálaráðuneytis heldur líka með lögreglu, ríkisskattstjóra og fleiri aðilum. Þessi hópur hefur þegar verið skipaður og fyrsti fundur hans fór fram í félagsmálaráðuneytinu 20. mars sl., þar sem lagt var til að samstarfshópurinn myndi hefja vinnu sína á því að formbinda reglulegt samráð, koma sér upp verklagi og ákveða samstarf þessa samstarfsvettvangs við samtök aðila vinnumarkaðarins um skipulagt vinnustaðaeftirlit.

Allar þessar tillögur í skýrslunni eru því þegar komnar í farveg og við fylgjum þeim mjög fast eftir. Ég á von á því að það þarfnist einhverra lagabreytinga til að fylgja þeim eftir og að þau frumvörp muni koma fram á næsta haustþingi.

Hv. þingmaður minntist sérstaklega á það að oft væru starfsmenn í erfiðri stöðu gagnvart yfirmönnum sínum vegna húsnæðismála. Þá vil ég nefna að fyrir tveimur vikum settum við inn í samráðsgátt frumvarp sem á að gera það óheimilt að blanda saman ráðningarsamningum og húsaleigusamningum. Ég bind vonir við að við getum lagt það fram í þinginu áður en framlagningarfrestur rennur út.

Ég vil bara segja að þetta er gríðarlega mikilvæg umræða, mikilvægt að þessum málum sé fylgt fast eftir og ég þakka (Forseti hringir.) þingmanninum fyrir að taka þetta upp á þinginu.