149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

umbætur á leigubílamarkaði.

617. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Það er ánægjulegt að heyra að málið er í þessum farvegi.

Ég hafði í seinni umferð hug á að forvitnast um, svolítið í tengslum við það sem ég spurði um fyrst, hvort það væri fyrst og fremst verið að mæta athugasemdum að lágmarki eða hvort ætlunin væri að horfa víðar. Það gleður mig að heyra að sú er hugmyndin og menn eru að horfa á farveiturnar, deilibílana, pantanaþjónustu og annað slíkt. Ég er sannfærður um að þetta skiptir gríðarlega miklu máli, vissulega mismiklu eftir aðstæðum. Til þess að leigubílarnir geti sinnt þessu hlutverki sínu í almenningssamgöngukerfinu, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom líka inn á, sem er gríðarlega mikilvægt, þarf þjónustan einfaldlega að vera aðgengileg nútímaheimilum og nútímasamfélagi og á viðráðanlegu verði. Þar kemur náttúrlega inn í heilbrigð samkeppni eins og annars staðar. Með heilbrigðri samkeppni er verið að innifela öryggissjónarmið ella er samkeppnin ekki sérstaklega heilbrigð.

Mig langar í lokin að nefna að náin tengsl eru á milli almenningssamgangna almennt og umhverfismála. Það er horft til aðstæðna í löndunum í kringum okkur, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, og það eru önnur lönd en Noregur að skoða endurbætur á sínu kerfi, væntanlega með tilliti til nýsköpunar og þeirrar þróunar sem er að verða, ekki síst í lífsháttum borgarbúa almennt. Eitt af því sem kemur upp eru hugmyndir um svokölluð græn leigubílaleyfi, þ.e. það er hvatt til þess á markvissan máta til að draga úr starfsemislosun bílaleigubíla. Ég velti því fyrir mér hvort það samhengi allt sé eitthvað sem er verið að skoða. Það væri synd að láta það tækifæri fram hjá sér fara þegar verið er að fara yfir svona viðamiklar aðstæður og þetta er það sem löndin, ekki síst í Mið-Evrópu, horfa mikið til þessa dagana. — Að öðru leyti þakka ég kærlega fyrir.