149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

aðgerðir gegn kennitöluflakki.

670. mál
[17:24]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir fyrirspurnina. Það væri óskandi að maður þyrfti bara þrjár vikur til að undirbúa svona mál til að geta brugðist við þegar fyrirspurn er send. En það er rétt að við kynntum á samráðsgátt frumvarp sem er liður í þessu, ekki þó þannig að ef það verður að lögum sé hið svokallaða kennitöluflakk úr sögunni. En þetta er skref sem skiptir máli, er mjög vandað og vel undirbúið og löngu kominn tími fyrir okkur til að taka og klára. Ég vona innilega að frumvarpinu verði vel tekið, það fái þá þinglegu meðferð sem þarf og við sameinumst síðan hér fyrir vorið og tökum þessi skref.

Ég vil byrja á því að taka fram að það er ekki ólöglegt hér á landi að verða gjaldþrota. Þessu er mjög mikilvægt að halda til haga í allri umræðu um þessi mál. Þvert á móti er mikilvægt að gæta meðalhófs við leit að leiðum til úrbóta og að þær aðgerðir sem ráðist er í séu vel ígrundaðar og ekki sé gripið til úrræða sem t.d. hindra frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi eða hefta eða fæla erlenda fjárfesta frá því að koma með fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf.

Það er mikilvægt að hlúa að sanngjörnu viðskipta- og samkeppnisumhverfi hér á landi en kennitöluflakk í atvinnurekstri ógnar því. Þess vegna er mikilvægt að leitað sé leiða til að sporna við misnotkun á hlutafélagaforminu, af því að þetta er ekkert annað en misnotkun á því og kennitölu í atvinnurekstri. Orðið kennitöluflakk er þá notað um ákveðna misnotkun eigenda í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar, einkum þegar liggur fyrir grunur um ólöglegt atferli.

Í samráðsgátt Stjórnarráðsins er nú að finna frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Markmiðið með frumvarpinu er að stemma stigu við misnotkun á hlutafélagaforminu og er kennitöluflakk í atvinnurekstri þar fyrst og fremst undir.

Frumvarpið byggir á sáttmála ríkisstjórnarflokkanna en þar er m.a. að finna umfjöllun um stefnu ríkisstjórnarinnar í vinnumarkaðsmálum og kennitöluflakk er þar sérstaklega tilgreint. Frumvarpið er fyrsta skrefið í að bregðast við sameiginlegum tillögum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá því í júní 2017 um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri. Þetta mál hefur verið í vinnslu síðan. Auðvitað hafa svona frumvörp í einhverri mynd verið mjög lengi í vinnslu í ráðuneytum og lögð fram á þingi reglulega, en þetta mál hefur verið í vinnslu frá því sumarið 2017 þegar við tókum við þessum tillögum, ég og þáverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson. Þetta er vandasamt verk sem hefur kallað á mikið samtal milli ráðuneyta, ASÍ, Samtaka atvinnulífsins og fleiri. Kallaðir voru til sérfræðingar, bæði innan ráðuneytanna og utan, og þetta hefur tekið tíma. En ég geri líka ráð fyrir að málið sé nægilega vel unnið til að þola þinglega meðferð og verða samþykkt.

Sú tillaga sem hvað mest áhersla hefur verið lögð á er tillaga ASÍ og SA um að hægt sé að úrskurða einstakling í atvinnurekstrarbann í tilteknum tilvikum. Það skoðuðum við sérstaklega hvernig hægt væri að útfæra tillögur samtakanna um atvinnurekstrarbann svo að þær væru í samræmi við almenna málsmeðferð hér á landi. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að það er mikilvægt að meðferð mála sem þessara gangi hratt fyrir sig og því nauðsynlegt að huga að málsmeðferðinni hvað það varðar. Við mat á því hvaða útfærsla af atvinnurekstrarbanni komi helst til greina vegast á sjónarmið um skilvirkni og almannahagsmuni annars vegar og réttaröryggi borgaranna og meðalhóf hins vegar.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þríþættar. Fyrst er að nefna tillögu um breytingu á 262. gr. almennra hegningarlaga, en tillagan gengur út á það að hægt verði að úrskurða einstaklinga í atvinnurekstrarbann í allt að þrjú ár með dómi, hafi viðkomandi gerst sekur um brot sem varða við 262. gr. almennra hegningarlaga. Um er að ræða meiri háttar brot gegn tilgreindum ákvæðum laga um tekjuskatt, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, laga um virðisaukaskatt, laga um bókhald og laga um ársreikninga. Í frumvarpinu er einnig lagt til að við upptalninguna verði bætt við tilgreindum ákvæðum í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þannig að lífeyrissjóðsskuldbindingum verði veitt samsvarandi vernd og vörslusköttum.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, um að hert verði á hæfisskilyrðum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra slíkra stofnana og að sambærileg hæfisskilyrði og gilda um stjórnarmenn hlutafélaga, einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur gildi einnig um þá sem fengið hafa prókúruumboð.

Í þriðja lagi er lagt til að heimild ráðherra samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög til að krefjast skipta á búi slíkra félaga í ákveðnum lögbundnum tilfellum verði flutt til hlutafélagaskrár. (Forseti hringir.)

Ég geri ráð fyrir því að koma frumvarpinu inn í þingið fyrir tilskilinn frest.