149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:46]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Við erum alveg sammála um að slík lagaumgjörð sem lög um opinber fjármál hafa sett ríkisfjármálin í, þ.e. þetta áætlunarferli, er auðvitað til þess að hjálpa okkur við að takast á við óvissu og þær kringumstæður sem eru alla jafna uppi.

Við í hv. fjárlaganefnd, hvar hv. þingmaður situr, munum alveg örugglega kalla eftir öllum greiningum og sviðsmyndum umfram það sem við þegar höfum. Ég er sammála hv. þingmanni að það er mjög til bóta í fjármálaáætluninni að í greinargerð eru þær sviðsmyndir sem hv. þingmaður vitnaði til í ræðu sinni í rammagrein tvö og þrjú. Til dæmis um hagsveifluleiðrétta afkomu sem hv. fjárlaganefnd hefur kallað mjög eftir og svo frávikssviðsmynd sem er þar jafnframt í rammagrein þrjú. Við höfum þegar fengið Hagstofuna á okkar fund til að fara yfir þá hagspá sem leggur grunninn að forsendum að þessari áætlun. En mögulega greinist eitthvað úr þeirri óvissu sem við erum að ræða nú í umfjöllun um áætlunina þann tíma sem er fram undan.

Ég hnaut um orðalag hv. þingmanns þegar hv. þingmaður segir að bregðast þurfi við með hefðbundnum niðurskurði. Hvað er hefðbundinn niðurskurður? Og hvernig myndi hv. þingmaður bregðast við ef forsendur breytast? Gefum okkur að enginn hagvöxtur verði frá 1,7%, sem er í gildandi hagspám, hvar væri sá hefðbundni niðurskurður?