149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég kominn í andsvör. En það er sjálfsagt að ræða þessa kafla í áætluninni. Þá vil ég byrja á að segja að það sem eru útgjaldaáform í þessari áætlun, það hefur verið fjármagnað. Það er fjármagnað með þeim hætti sem birtist okkur í þróun einstakra málefnasviða.

Í þeim tilvitnaða kafla sem hv. þingmaður rekur hér er verið að vekja athygli á því að fyrir utan þá fjármögnun sem er tryggð í fjármálaáætluninni getur komið til skoðunar á áætlunartímabilinu að bæta enn frekar í. Þar gæti komið til álita, já, að tryggja laust fé, t.d. með sölu banka. Það myndi gera okkur kleift að ráðast í fjárfestingar án lántöku.

Engin áform eru uppi um að selja hlut í Landsvirkjun. Ég er þeirrar skoðunar, en það er ekki til lykta leitt í ríkisstjórninni, að samstarf með einkaaðilum (Forseti hringir.) um einstakar stórframkvæmdir eigi að koma til skoðunar. Þróunarfélög eru önnur hugmynd.