149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki stefnuleysi. Þetta er nefnilega algerlega kristaltær stefna, að leggja á græna skatta til að ýta undir það að fólk skipti um orkugjafa.

Hvort það dreifist ójafnt, ja, það má svo sem segja að á höfuðborgarsvæðinu keyri fólk líklega hvað mest. Hér er fjöldinn. Vissulega eru vegalengdirnar okkar margra mjög langar. Það má vera að atvinnutæki og annað sem er til sveita gæti verið eitthvað sem við þyrftum að horfa til með mótvægisaðgerðir í huga. Ég ætla ekki að útiloka það.

En almennt séð held ég að framþróunin í ökutækjum og öðru slíku til orkuskipta, auknar rannsóknir til nýsköpunar í öllu því sem lýtur að þessu — við eigum að setja aukna peninga í það. Við getum gert það m.a. með því að innheimta kolefnisskattinn og flýta þannig fyrir (Forseti hringir.) því að þetta geti átt sér stað, líka í hinum dreifðu byggðum.