149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Já, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Það er engin ástæða til að vera í neinum hræðsluáróðri um stöðuna. Við verðum samt að ræða þetta af ábyrgð og það er engin sérstök ástæða til að óttast að við ráðum ekki bara býsna auðveldlega við þá aðlögun sem fram undan er.

Það sem ég hef fyrst og fremst verið að gagnrýna er að sú aðlögun var fyrirsjáanleg með allnokkrum fyrirvara, endalaust erfitt að segja nákvæmlega til um hvenær slíkt kemur inn. En þetta hefur bara alltaf gerst hjá okkur í hagkerfinu, hin sjö feitu ár og svo, blessunarlega sjaldan, sjö mögur, en það er samt meðallíftíminn hjá okkur; sjö, átta ár í uppsveiflu og svo tökumst við á, ef við getum sagt sem svo, í annað hvert skipti við nokkuð harðan skell og síðan nokkuð mjúka lendingu. Nú erum við vonandi að fara í mjúka lendingu. Ríkissjóður stendur vel að vígi til að takast á við það, en full ástæða er til að sýna varfærni og missa ekki tökin á ríkisfjármálunum akkúrat á þeim tímapunkti.