149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég verð að segja að ríkisstjórnin sem hv. þingmaður sat í hafði 1,3% afkomumarkmið fyrir árið 2020, þannig að við sjáum hverfulleikann, hvernig þetta er. En ég get auðvitað ekki annað en spurt í ljósi bæði andsvara hv. þingmanns og ræðu hans hvar hann telji helstu sóknarfærin vera til þess að trappa niður útgjöld ríkisstjórnarinnar sem leggur fram þessa áætlun, mér heyrist að það sé kannski sú leið sem þingmaðurinn vill fara. Á að draga úr framkvæmdum eða á að hætta við stuðning t.d. vegna kennaranemanna eða hvað? Hann nefndi lengingu fæðingarorlofsins og annað slíkt. Það er eitt af því sem hefur verið lagt undir til að liðka fyrir kjarasamningum. Telur hann að við eigum að geyma það? Með hvaða hætti telur hv. þingmaður rétt að bregðast við því sem hann hefur farið yfir hér? Hann telur að kerfið sé að bólgna það mikið út að það sé ekki skynsamlegt að gera þetta. Við erum auðvitað að leggja mikið í nýsköpun, ríflega milljarð, og höfum kynnt til leiks margar stórar framkvæmdir sem þegar eru hafnar og eiga eftir að verða.

Síðan langar mig að varpa spurningunni til baka sem hv. þingmaður beindi til mín, þ.e. hvernig hann sér fyrir sér að taka beri á ef kjarasamningar verða með öðrum hætti en hér er lagt upp með, þ.e. launahækkun til opinberra starfsmanna út frá þeim markmiðum sem sett eru í áætluninni.