149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:56]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Áður en við komum að því óyndisúrræði að draga til baka skattalækkanir eða endurskoða útgjöld þá er reifað mjög skilmerkilega, í þingsályktunartillögu um endurbætur í ríkisrekstri, hvernig við notum ríkisreikning, hvernig við getum mögulega selt ríkiseignir o.s.frv. Til þeirra úrræða myndum við fyrr grípa en að draga til baka boðaðar skattalækkanir, boðaðar aðgerðir vegna kjarasamninga o.s.frv. Þannig myndi ég vilja svara hv. þingmanni um fyrstu aðgerðir.

Enn er þróttur í efnahagskerfinu. Við megum ekki tala um efnahagslífið eins og sprungið sé á öllum hjólunum. Spáð er 1,7% hagvexti. Hagspáin segir okkur að mikill þróttur sé í mörgum greinum atvinnulífsins sem vegur upp þætti sem dragast saman. Við skulum því ekki nálgast þetta út frá öðru en að segja að 1,7% hagvöxtur séu ágætar horfur í samhengi hlutanna.