149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég spyr að þessu vegna þess að enn ber svo mikið í milli. Nú á ég eftir að reikna hvernig þessar tillögur varðandi hækkun barnabóta og svoleiðis skila sér — og þá til hverra. Þær skila sér klárlega til barnafólks sem hefur minna á milli handanna, fólk sem er á fyrri hluta starfsævinnar o.s.frv. Það væri mjög áhugavert að sjá hverju þetta skilar í krónutölum.

Nú er talað um styttingu vinnuvikunnar. Það er eitthvað sem enn er svigrúm til og aðilar vinnumarkaðarins gætu verið að ræða sín á milli, að vinnuvikan sé eitthvað stytt sem þýðir að þú ert með fleiri yfirvinnutíma ef því er að skipta o.s.frv.

Það sem stendur út af er: Jú, það hefur verið mjög jákvætt varðandi húsnæðismálin og aðra þætti. Eftir stendur að tillagan varðandi skattalækkun nær ekki til þeirra sem minnst hafa, þeirra sem eru með allra lægstu launin. Þeir fá ekki þessar skattalækkanir sem verið er að leggja til frá ríkisstjórninni. Við sjáum að þær byrja ekki fyrr en einmitt í þessu þrepi, ef þú nærð ekki upp í það allt nærðu ekki allri skattalækkuninni. Það er eitt. (Forseti hringir.) Og það er svona einn á móti tíu af þessum kröfum sem er raunverulega verið að fara eftir. Hvað er mikið svigrúm til auka skattalækkanir á tekjulægstu hópana?