149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Ingu Sæland, þau eru mörg skammtímaúrræðin sem hafa lifað lengur en ætlað var. Við horfum til þess að greiningar benda til þess að kostnaður innlends fjármálakerfis sé mikill, að það sé dýrt. Þá hljótum við að vera reiðubúin að skoða leiðir í því hvernig við getum lækkað þann kostnað til þess að skila almenningi í landinu lægri vöxtum, því það er auðvitað líka risastórt lífskjaramál. Það er eitt af því sem Gylfi Zoëga bendir á í sinni skýrslu, þegar hann er að skoða hvað geti orðið til þess að bæta lífskjör almennings í landinu, þá eru það m.a. lægri vextir, lægri húsnæðiskostnaður. Það er eitthvað sem við erum að reyna að reyna að leggja grunninn að í fjármálaáætlun með því að auka framboð á félagslegu húsnæði og skoða aðra þætti sem geta varðað lífskjör án þess að það snúist beinlínis um krónur í launaumslagið, því að það var í raun verkefnið. Ef kostnaður bankakerfisins á Íslandi er meiri en annars staðar þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvernig við getum dregið úr þeim kostnaði.