149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að ef skattamálaráðherrann réði þessu eingöngu sjálfur værum við líklega ekki að tala um fjölþrepa skattkerfi. Ef ég kann hægri og vinstri pólitík nokkurn veginn rétt hefði ég haldið að þessar skattatillögur hefðu kannski litið aðeins öðruvísi út. Ef ég má „fabúlera“ um það, svo að ég sletti hér í ræðustól, held ég einmitt að þessar skattkerfistillögur sýni það nákvæmlega að þær eru ákveðin millileið sem byggist á, að því er ég vil telja, gagnreyndri norrænni aðferð.

Ég kom aðeins inn á það í andsvari áðan að hér hafa skattleysismörkin verið há í norrænum samanburði og grunnprósentan sömuleiðis há í lægsta þrepinu. Og þrepin hafa verið fæst, ef við tökum þetta í norrænum samanburði. Hvað erum við þá að gera? Við erum að fara niður með lágtekjuþrepið, lækka prósentuna í neðsta þrepinu sem er að norrænni fyrirmynd um að fjölga þrepunum upp í þrjú til þess að auka innbyggðan jöfnuð í kerfinu og tryggja um leið að viðmiðunarmörkin þróist öll samkvæmt sömu formúlu, til að tryggja, eins og verið hefur, áður en við breyttum því um síðustu áramót, þar sem neðra þrepið miðast við neysluvísitölu en efra þrepið miðast við launavísitölu. Það skapaði skattskriðið sem Alþýðusamband Íslands hefur til að mynda verið að benda á í skýrslum sínum og einhverjir hv. þingmenn virðast halda að sé enn við lýði því að þeir tóku ekki eftir breytingunni sem var gerð um síðustu áramót. Ég ætla bara aftur að minna á að um síðustu áramót voru þessi viðmiðunarþrep færð til samræmis í neysluvísitölu. Í nýjum tillögum er síðan verið að leggja til að við bætum framleiðni við þau viðmiðunarmörk. Við getum sagt að við séum þá að miða þrepið í skattkerfinu við framleiðniaukningu í hagkerfinu, sem er auðvitað ákveðið hagstjórnarmál.

Hv. þingmaður hefur mestar áhyggjur af lægst launuðu hópunum, eins og ég skil hann, að þeir njóti ekki ávaxtanna af skattkerfisbreytingum. Ég kem aðeins inn á það í seinna andsvari.