149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Svo ég komi aftur að málefnum örorkulífeyrisþega þá held ég að það sé mjög mikilvægt að við horfum heildstætt á þau. Ég veit að hv. þingmaður hefur setið í hópi þar sem ekki hefur enn náðst endanleg samstaða. Ég held að það sé hins vegar mjög mikilvægt að sá hópur skili af sér. Það eru ýmsir þættir undir þegar við ræðum um kjör örorkulífeyrisþega og ég held að ef við skoðum skattatillögur ríkisstjórnarinnar muni þær að sjálfsögðu skila lægri skattbyrði fyrir þennan hóp.

Þær tillögur koma til móts við þá hópa sem liggja í lágtekjumörkum. Aukin áhersla á félagslegt húsnæði skiptir líka máli fyrir örorkulífeyrisþega en síðan þarf að ræða hvað við viljum sjá þegar kemur að skerðingunum, sem hv. þingmaður hefur rætt, og er mjög ofarlega á forgangslista þeirra fulltrúa sem tala fyrir örorkulífeyrisþega, að undið verði ofan af þeim. Það er líka mikilvægt að horfa á framfærslu almennt og síðan hvernig við getum greitt fyrir þeim sem geta sinnt störfum að hluta, hvernig við getum greitt þeirra leið, t.d. af hálfu hins opinbera, að skapa fleiri störf til að koma til móts við þá hópa.