149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:28]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Umferðaraukningin á því árabili sem er nefnt í fjármálaáætluninni er gríðarleg, bæði á hringveginum og svo auðvitað á einstaka stöðum. Hv. þingmaður nefndi Mýrdalssand, sem er kannski vegur sem fyrir nokkrum árum var ekki talið nauðsynlegt að vera með mikla vetrarþjónustu á en er í dag nauðsynlegt. Þjónustuliðurinn hefur vaxið hjá okkur og við höfum átt í erfiðleikum með að standa undir því fjármagni sem stöðugt er vaxandi krafa um, annars vegar með aukningu á vetrarferðaþjónustu og almennri kröfu um að bæta þjónustu, sérstaklega yfir vetrartímann. Hálkuvarnir eru dýrari en snjómokstur.

En varðandi það sem hv. þingmaður nefndi settum við 4 milljarða til viðbótar í fyrra úr varasjóði í viðhald og við erum með 10 milljarða; árið 2016 voru þeir innan við 6. Aukningin hefur verið veruleg og ég veit að hv. þingmaður hefur séð það, á ferð sinni um landið á þessu ári, að ástandið batnaði mjög. Núna erum við einmitt á þessum sama tíma, vegirnir að koma undan vetri og þá koma skemmdirnar í ljós aftur. Við erum svo sannarlega ekki búin að ná í skottið á okkur og þess vegna setjum við aukna fjármuni þar inn. En varðandi fækkun einbreiðra brúa þá voru þær 37 á hringveginum árið 2018, á næsta ári, 2020, ætlum við að vera búin að fækka þeim um sex, niður í 31, og 2024 verða þær komnar í 25. Ég vil minna hv. þingmann á að sumar af þessum brúm eru mjög dýrar þó að þær séu einbreiðar. Ekki er hægt að laga allt með ræsum heldur kosta þær kannski milljarð eða tvo, jafnvel meira.