149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef metnað fyrir málaflokkinn og þakka hv. þingmanni brýninguna. Þó að ég svari frekar hart því sem hér er sagt þá er ég á þeirri skoðun að gera megi betur á ýmsum sviðum. Stjórnvöld geta gert betur varðandi fjármögnun í ýmsum grunnstoðum í samfélagsgerðinni. Ég nefni það sem dæmi, t.d. varðandi hafrannsóknir, að það er ekki í mínum huga boðlegt að fjármagna jafn stóran hluta Hafró og við höfum gert með sjóðum sem byggja á því hversu mikill ólöglegur afli er gerður upptækur. Við erum m.a. að breyta því núna, erum að koma fastari fjármögnun til Hafró þannig að stofnunin þurfi ekki að reiða sig á svona sveiflukennda sjóði. Þetta á allt að einu að verða til þess að styrkja betur grunn þeirra rannsókna sem við stundum. Ég deili skoðun með hv. þingmanni í því að við getum alltaf lagt aukna fjármuni í rannsóknir. Ég segi líka að stundum getum við farið betur með og spilað betur úr því sem við fáum en við gerum. Ég þarf sömuleiðis sem ráðherra málaflokksins að gæta að þeim sjónarmiðum.